14.05.1929
Neðri deild: 68. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

101. mál, póstmál og símamál

Halldór Stefánsson:

Eftir umr. að dæma lítur út fyrir, að frv. sæti hjer miklum og almennum andmælum. En þó hafa flestir fallist á, að aðalstefna frv. sje rjett. Þó að einstökum atriðum sje andmælt, þá er ekkert við því að segja og ekki nema eðlilegt, að menn greini á um einstök atriði. En ekki er nú ólíklegt, að eitthvað geti dregið saman með mönnum fyrir 3. umr.

Frv. hefir verið harðlega mótmælt með getsökum í garð stj. um, að hún mundi framkvæma sameininguna harkalega, ef hún væri leyfð í lögum. Þessar getsakir eru á engu bygðar, og vil jeg leyfa mjer að svara þeim með sjálfri grg. frv., og geta menn þá dæmt um, hversu harkalega ætlað er að framkvæma sameininguna. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„— og er gert ráð fyrir því, að unnið verði að því að koma þeirri sameiningu sem fyrst á, eftir því sem stöður losna eða núverandi samningar við sveitarstjórnir um rekstur símastöðva renna út. Víða hagar svo til, að þetta mun reynast erfitt, og verður því ráðherra að geta gert undanþágu frá sameiningu þar, sem t. d. ekki fæst neinn til að taka bæði störfin, eða sameiningin af öðrum ástæðum álítst óframkvæmanleg eða óheppileg eða verður til muna dýrari en starfræksla stöðvanna hvorrar í sínu lagi“.

Í 3. grein stendur hinsvegar, að ráðherra geti veitt undanþágu frá því, að sami maður gegni bæði stöðvarstjóra- og póstafgreiðslumannsstarfi, þegar sjerstakar ástæður eru fyrir hendi. Jeg þykist með þessu hafa sýnt fram á, að þessar ásakanir og getsakir þeirra hv. þm., sem á móti eru frv., eru á engum rökum reistar.

Jeg er nú á þeirri skoðun, að nál. póstmálan. sje í rauninni ekki til umr., en með því að allmargir hv. þdm. hafa dregið það inn í umr., eða einstök atriði þess, þá vona jeg, að mjer leyfist að gera það einnig.

Út af því, sem hv. þm. N.-Þ. sagði um einstök atríði grg. póstmálan., einkum þau, er snertu staðhætti í hans kjördæmi, þá vil jeg segja nokkur orð. Það er rjett, að n. hefir ekki tekið afstöðu til þess, hvort Fjallahreppur í Norður-Þingeyjarsýslu skuli hafa póstsamband við Kópasker eða Vopnafjörð. Jeg tel einsætt, að það verði til Kópaskers. Í annan stað talaði hv. þm. um póstsamband Skeggjastaðahrepps. N. hallaðist helst að því að hafa það við Þórshöfn, en hv. þm. kvað n. vilja hafa það við Vopnafjörð. Annars talar n. mjög sanngjarnlega um þetta og vill, að hreppsbúar skeri úr sjálfir, frá hvorum staðnum þeir vilji fá póstinn. Það er enginn höfuðmunur á leiðum; jeg hygg, að áhöld sjeu um vegalengdir frá Skeggjastöðum til Vopnafjarðar og til Þórshafnar. Það er að vísu rjett, að hreppsbúar Skeggjastaðahrepps hafa meiri viðskifti við Þórshöfn en Vopnafjörð, en það er tvísýn ástæða til þess að hafa póstsambandið við Þórshöfn fyrir þær sakir einar. Gæti þvert á móti verið hagfeldara fyrir þá að hafa póstsambandið á þá hönd, sem þeir hafa strjálara samband við af öðrum ástæðum. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg telji það skifta miklu máli, á hvora hönd póstsambandið er, heldur til þess að sýna lauslega fram á, að þessar umkvartanir og aðfinslur eru ekki allar mikilsverðar og meira og minna bygðar á misskilningi. Frv. gerir nefnilega ráð fyrir stórum bættum póstsamgöngum á sjó. Óhjákvæmilega hlýtur það að hafa það í för með sjer, að nokkuð af núv. landpóstgöngum leggist niður og að það breytist. Fjárhagurinn leyfir ekki, að stórbættar sjeu póstsamgöngurnar á sjó, án þess að landsamgöngurnar breytist og rýrni eitthvað, vitanlega þó ekki að sama skapi mikið og umbótunum nemur.