06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Sigurðsson:

Úr því að þessi andmæli hafa komið fram, þá vil jeg benda hæstv. forsrh. á það, að það, sem hann taldi að sjerstaklega þyrfti að kippa í lag, er auðgert með þeirri reglugerð, sem heimilað er að setja samkv. 61. gr. frv. Þar má ákveða t. d., hvað þessi smábýli eiga að vera stór og skilgreina þau nánar að öðru leyti. Jeg get ekki sjeð annað en að hæstv. forsrh. geti bætt úr þessum ágöllum og illa undirbúningi, sem hann talar um, að sjeu á þessum nýja kafla frv., með reglugerð og þurfi ekki neina nýja lagasetningu um það. Jeg hefi ekki getað sannfærst um það af þeim umr., sem hjer hafa farið fram, að það sje nokkur minsta þörf á þessari nýju lagasetningu, en því ófullkomnari sem þessi kafli frv. er, því ítarlegri og fyllri verður reglugerðin að vera. Hæstv. forsrh. ætti ekki að verða skotaskuld úr því að gera reglugerðina svo úr garði, að ekki kæmi að sök, þar sem hann virðist hafa svo mikinn áhuga fyrir þessu máli. Jeg sje heldur ekki, að það sje nein ástæða fyrir okkur að fara að hopa fyrir hv. Ed., þó að hún sje á annari skoðun, en getum haldið fast við okkar meiningu.