02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

47. mál, kosningar til Alþingis

Flm.(Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki miklu að svara. Jeg skal ekki frekar en hv. 2. þm. Reykv. spá um það; hvort hugir manna sjeu breyttir til þessa frv. Það er að vísu rjett, að jeg sagði, að ekki væru neinar nýjar ástæður með þessu frv. fyrir hendi, en þær eru eins góðar fyrir því, enda hafa engar þingkosningar farið fram að hausti til síðan 1927, er frv. þetta var síðast fram borið. Og þótt ástæðurnar sjeu ekki frá allra nýjustu tímum, þá er þó ekki langt síðan illviðrin sýndu það, að ekki er rjett að hafa kjördaginn á þeim tíma árs, þegar von getur verið á snjó og harðviðrum.

Hv. þm. talaði um, að það hefði komið berlega í ljós síðast, og hefir þá víst átt við kosningarnar 1927, að 1. júlí hefði verið verkamönnum óhentugur dagur. En jeg vil nú, að hv. þm. bendi á, í hverju þær illu afleiðingar hafa komið fram. Jeg held, að þær kosningar hafi ekki verið ver sóttar en aðrar hafa áður verið.

Jeg skal ekkert segja um þessar áskoranir, sem hv. þm. var að tala um. Jeg legg ekki mikið upp úr þeim. Það er alkunnur siður þess flokks, sem hv. þm. telst til, að safna áskorunum. En þær sanna ekki rjettan vilja kjósenda í þessu efni. Ef safnað væri atkv. um þetta í sveitum landsins, þá mundi útkoman verða alt önnur. Jeg hygg, að menn mundu finna, að það er í raun og veru gengið nærri því að svifta þá kosningarrjetti að hafa kjördag 1. vetrardag. Þegar meta skal hagsmuni sveita og sjávarmanna, sjest, að aðstaðan er ólík. Í kaupstöðum þurfa menn ekki annað en að afhenda atkv. sitt á staðnum. En í sveitum verða menn að ferðast langa leið til þess að geta notað atkvæðisrjettinn.