02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2291 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

47. mál, kosningar til Alþingis

Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. flm. færði litlar ástæður fram, er mæltu með frv. Jeg lít svo á, að þegar þessi dagur, sem nú er í lögum, var ákveðinn, þá hafi það verið gert með fullum skilningi á því, að sá dagur væri öllum landslýð heppilegastur sem kjördagur. Eina ástæðan, sem færð hefir verið með frv., er sú, að stundum geti illviðri hamlað mönnum frá að sækja kjörfund í einstaka hjeraði landsins. Þetta kann að hafa komið fyrir við síðasta landskjör, en væri þetta mál rannsakað, kæmi eflaust í ljós, að flestir kjördagar á þessum tíma árs hafa ekki verið þeir illviðrisdagar, að kjörfundarsókn hafi tepst fyrir þær sakir. Við kjördæmakosningarnar 1923 var einmunatíð um land alt. En færsla á kjördeginum til vorsins, eða 1. júlí, mundi hinsvegar koma hart niður á þeim, sem búa við sjávarsíðuna. Þá er meiri hl. verkamanna og sjómanna farinn frá heimilum sínum víðsvegar um land í atvinnuleit. Svo er t. d. um Hafnfirðinga, Vestmannaeyinga, Reykvíkinga, Eyrbekkinga, Stokkseyringa, kauptúnin á Vesturlandi og Snæfellsnesi. Eins er það á Austfjörðum, svo sem Norðfirði og Eskifirði, og jafnvel fleiri fjörðum þar eystra. Menn þaðan eru komnir norður á Langanes og víðar til sumarróðra. Sjómenn af Suðurlandi eru komnir til verstöðva norðanlands og aðrir í kaupavinnu og vegavinnu. Mestur hluti verkamanna er því í framkvæmdinni sviftur kosningarrjetti. Að vísu hefir verið á það bent, að þeir geti kosið áður en þeir fara, en stundum fara þeir áður en lögleyfður tími er kominn, sem kjósa má á, og fara oft að heiman með svo stuttum fyrirvara, að það gleymist að kjósa eftir að sá tími er kominn, þá leyft er að kjósa. Þessi færsla þýðir því í raun og veru það, að allmikill hluti verkamanna er sviftur kosningarrjetti sínum. Jeg býst þó varla við, að slíkt vaki fyrir hv. flm. Eins og jeg gat um áður, þá hefir vegna þekkingar og reynslu á því, hver tími væri heppilegastur, verið valinn 1. vetrardagur. Þá eru flestir við heimili sín, komnir heim úr sumaratvinnunni, og þá minna bundnir við atvinnuáhyggjur og geta frekar um slík mál hugsað. öll breyting mundi miða að því að gera mönnum erfiðara að fullnægja þeirri skyldu, sem kosningarrjetturinn leggur mönnum á herðar. Jeg mun því greiða atkv. á móti frv. þessu.