02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

47. mál, kosningar til Alþingis

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð út af því, er haft hefir verið á móti frv. Að vísu er það sami „svanasöngurinn“ og áður hefir verið sunginn hjer, en nú eru „svanirnir“ orðnir þrír, í stað þess að áður var aðeins einn.

Það hefir ekkert nýtt verið borið fram gegn frv. Þó ætla jeg að minnast á eina mótbáruna, er fram hefir verið borin, nefnilega þá, að með frv. þessu væru kaupstaðarbúar sviftir kosningarrjetti sínum í framkvæmdinni. Þetta er ekkert annað en firra; það má heita jafnauðvelt að kjósa skriflega og að fara á kjörstað, og hver, sem hefir forsvaranlegan áhuga á kosningum, mundi að sjálfsögðu fara þannig að. Margir geta verið fjarverandi heimilum sínum fyrsta vetrardag, alveg eins og 1. júlí. Mætti þá með sama rjetti segja, að þeir sjeu sviftir kosningarrjetti sínum í reyndinni. Hver vill segja það í alvöru? Það er verið að bera saman þessa tvo daga, 1. júlí og fyrsta vetrardag, hvor heppilegri sje. Það má segja, að það getur verið álitamál, en það er ekki aðalástæðan fyrir mjer, heldur sú, að fyrsta vetrardag er veðrátta oft þannig, að menn eru hindraðir af náttúrunnar völdum, m. ö. o. af algerlega ósjálfráðum atvikum, að neyta kosningarrjettar síns. Hv. 1. þm. Reykv. gerði lítið úr þessari ástæðu og vísaði til reynslunnar frá síðustu kosningum í því efni. En það sannar lítið í þessu tilliti. Þó kjörfundasókn væri góð í heild, þá var hún mjög misjöfn. Hann miðar við heildarsóknina við þessar umræddu kosningar. Áhugi manna var þá óvenju mikill, og á Suðurlandi og eins í öllum kauptúnum kom óveður eigi að sök. En sumstaðar á Norðurlandi og víða á Austurlandi voru menn stórlega hindraðir frá að komast á kjörstað vegna óveðurs. Þetta sannar því ekki, að frv. sje ekki á fullum rökum bygt. Ef horfið væri að því ráði að hafa kjördag 1. júlí, þá væri, að svo miklu leyti sem hægt er, sneitt hjá því, að menn hindruðust í kjörfundasókn sökum illrar veðráttu, því það er sá tími, sem veðráttan er einna áfallaminst.

Jeg býst alveg eins við því, að mótmælasöngurinn eigi eftir að vera sunginn margoft ennþá, en jeg mun nú láta söng þann hlutlausan hjer eftir.