02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2303 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

47. mál, kosningar til Alþingis

Einar Jónsson:

Jeg býst ekki við, að það breyti miklu, þó að jeg leggi hjer nokkur orð í belg ennþá. Mjer líkaði margt vel í ræðu hv. 1. þm. N.-M., en þar sem hann fór að líkja andmælum mótstöðumanna frv. við svanasöng, fanst mjer hann gera þeim helst til hátt undir höfði, því að satt að segja fundust mjer þau frekar rámar raddir en hljómfagur söngur. Annars nær það engri átt af þessum „verkfallsbræðingum“ að vera að tala um íhaldsbræðing í þessu sambandi, því að hjer er ekki um neinn bræðing að ræða, hvorki af hálfu íhaldsmanna eða annara. Og satt að segja skil jeg ekkert í þeim kjarki, sem þessir menn hafa, að geta nú hver eftir annan staðið hjer upp og talað með miklum fjálgleik um umhyggju þá, sem þeir beri fyrir verkamönnum og sjómönnum landsins, þegar þeir, eins og alkunnugt er, voru þeir menn, sem aðalþáttinn áttu í hinu mikla, nýafstaðna verkfalli, sem allir eru sammála um, að sje eitthvert hið mesta böl, sem yfir þjóðina hefir komið á síðustu tímum. Slík ósvífni er mjer með öllu óskiljanleg, og það því frekar, þar sem jeg hefi ekki þekt þá að neinni illmensku áður. Að þeir skuli nú geta staðið upprjettir, eftir alt hið mikla böl, sem þeir hafa leitt yfir alþýðu þessa lands, er bæði mjer og öðrum undrunarefni.

Hv. þm. Ísaf. vil jeg segja það, að þar sem mjög er strjálbygt til sveita, mega menn ekki sofa fram yfir hádegi á kjördaginn, ef þeir eiga að geta komist á kjörstað og neytt atkvæðisrjettar síns, og sje nú vond færð og óhagstætt veður, eins og oft á sjer stað, eiga margir fult í fangi með að láta daginn duga til þess.

Þetta er ekki von að þeir menn skilji, sem alið hafa sinn aldur í kaupstað og ekki þekkja annað en að ramba á milli húsanna eftir steinlögðum gangstjettum og setjast upp í bíl við húsdyrnar hjá sjer, þegar þeir nenna ekki að hafa svo mikið fyrir lífinu að ganga á milli húsanna. Að slíkir menn hafi greind til þess að dæma um erfiðleika sveitamannanna, er ekki við að búast, og má því ekki taka tillit til þess, sem þeir segja í þessu efni.

Í mínum hreppi hagar svo til, að milli austasta og vestasta bæjar er álíka langt og hjeðan austur að Kotströnd. Frá þeim bæjum er því álíka langt á kjörstaðinn eins og hjeðan upp að Kolviðarhóli. Eru þó margar sveitir landsins enn ver settar í þessu efni en hún. Tel jeg mig því ekki míns kjördæmis vegna knúðan til þess að fylgja færslu kjördagsins, en jeg geri það vegna. þeirra kjördæma, sem eiga ennþá verri aðstöðu.