02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

47. mál, kosningar til Alþingis

Sigurjón Á. Ólafsson:

Aðeins örlítil kvittun til hv. 1. þm. N.-M. Hann sagði í öðru orðinu, að það væri sama og svifta fjölda manna kosningarrjetti að hafa kjördaginn fyrsta vetrardag, og játaði jafnframt, að það væri líka sama og svifta menn kosningarrjetti, ef svo væri hagað til, að menn gætu ekki sótt kjörfund. Hann færði heldur engin rök fyrir því, að menn gætu alment ekki sótt kjörfund fyrsta vetrardag, sem ekki var heldur von, því að þau munu nauðafá tilfellin, sem hægt er að segja, að veður hafi hamlað fólki að sækja kjörfund þann dag. Ef til vill má með nokkrum rjetti segja, að í kjördæmi hv. þm. hafi í nokkrum sveitum kjörfundarsókn tepst við síðasta landskjör. Hitt er aftur staðreynd, sem ekki verður í móti mælt, að fjöldi verkamanna er fjarvistum frá heimilum sínum 1. júlí árlega, og geta þeir því ekki notað atkvæðisrjett sinn. Það má því með eins miklum rjetti segja, að þeir sjeu sviftir kosningarrjetti, og það vitandi vits, af hálfu löggjafarvaldsins. Er því með frv. þessu beinlínis verið að draga úr áhuga almennings fyrir því að fylgjast með landsmálum, því eigi menn ekki kost á að neyta kosningarrjettar síns, dregur það úr áhuganum fyrir því að fylgjast með því, sem gerist á stjórnmálasviðinu.

Hvað snertir erfiðleika sveitakjördæmanna í þessum efnum, þá hefir allmikið verið gert til þess að draga úr þeim nú á seinni árum. Má þar til nefna fyrst og fremst, að nú er a. m. k. heimilt að hafa einn eða fleiri kjörstaði í hverjum hreppi, í stað þess, að áður var víða einn kjörstaður fyrir hverja sýslu. Þau munu því verða fá dæmin, sem hægt er að segja með rjettu, að fólk geti alment ekki sótt kjörfundi til sveita fyrsta vetrardag sökum óveðra, þegar svo þægilega er í haginn búið.

Þá var hv. 1. þm. Rang. kominn langt út fyrir efnið og farinn að tala um ýmsa hluti, sem ekki koma þessu máli við. Þeim útúrdúrum hans ætla jeg ekki að svara að þessu sinni. En eitt var það í ræðu hans, sem vakti athygli mína, og það var það, að hann taldi færslu kjördagsins enga sjerstaka þýðingu hafa fyrir sitt kjördæmi. Játaði hann því með þeirri yfirlýsingu sinni, að hann fylgdi þessu frv. aðeins til óþurftar öðrum.

Síðasta röksemd hans var sú, að við jafnaðarmenn værum svo mikil kaupstaðarbörn, að við þektum ekkert til staðhátta í sveitum landsins. Þessu er því að svara, að fyrir það fyrsta eru fjórir af okkur jafnaðarmönnum, sem sæti eigum á Alþingi, börn sveitanna. Jeg er t. d. alinn upp í sveit og dvaldi þar til fullorðinsára, og það í sveit, sem mjög er erfið yfirferðar. Hygg jeg þó, að íbúar þeirrar sveitar óski fæstir eftir því að fá kjördaginn færðan til 1. júlí. Auk þess get jeg bent á ýms hjeruð, sem enga þörf virðast hafa fyrir það, að kjördagurinn sje fluttur yfir á sumarið, og má þar sjerstaklega til nefna Skagafjörðinn, kjördæmi hv. 1. flm. frv. þessa. Þar er alstaðar mjög greitt yfirferðar og hvergi mjög langt á kjörstað. Og kæmi það fyrir, sem sjaldan þarf að gera ráð fyrir, að eigi sjer stað, að snjóar eða vetrarríki væri komið fyrsta vetrardag, þá geri jeg ráð fyrir, að Skagfirðingar teldu ekki eftir sjer að járna reiðhesta sína og fara ríðandi til kjörstaðar, sem þeir og ávalt munu gera, því vegir eru þar góðir til reiðar.

Eins og jeg því hefi tekið fram, eru það aðeins nauðafá kjördæmi, sem hugsanlegt er, að í einstöku tilfellum gætu átt örðugt með að sækja á kjörstað fyrsta vetrardag. (ÓTh: Eru þau þó til ?). Já, aðeins, en þau eru svo fá, að þau vega ekkert á móti því ranglæti, sem fjöldanum yrði gert, er við sjávarsíðuna býr, og þá sjerstaklega verkalýðnum, með flutningi kjördagsins.