02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

47. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Ísaf. talaði eitthvað um íhaldsbræðing. Jeg vil minna hann á, að þetta mál sýnist ekkert flokksmál; jeg held hv. 1. þm. Reykv. (MJ) sje nokkurnveginn gott dæmi um það. Það mætti þá með sama rjetti tala um íhalds-jafnaðarmannabræðing. (ÓTh: Það er hreint það ógurlegasta, sem kæmi fyrir).

Svo þótti hv. þm. erfitt að svara, hvað væri almenningsviljinn. Jeg get skilið það, ef það á að vera mælikvarði fyrir því, hvað á að gera í þessu máli. Hann hefir samt fundið út einn almenningsvilja. Það var við kosningarnar 1927. Þá varð Íhaldsflokkurinn langatkvæðaflestur. Ef hv. þm. Ísaf. vill lifa eftir sinni reglu, þá á hann að ganga í Íhaldsflokkinn. En vilji nú þessi hv. þm. fara að lifa eftir sinni kenningu, ber jeg aðeins kvíðboga fyrir því, að honum yrði ekki veitt inntaka í flokkinn.