02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

47. mál, kosningar til Alþingis

Haraldur Guðmundsson:

Það var einu sinni bátasmiður, sem þóttist mikill smiður. Hann ætlaði að smíða skip og byrjaði á neglunni. Líkt fór fyrir hv. 1. þm. Skagf., þar sem hann var að tala um, hvort jeg mundi fá inngöngu í Íhaldsflokkinn. Jeg býst við, að eins verði um þetta eins og negluna í bátinn. Báturinn var aldrei smíðaður, og jeg mun aldrei sækja um inntöku í Íhaldsflokkinn.

Hv. þm. Dal. sagðist vita þess dæmi, að veður hefði ráðið kosningaúrslitum í sveitakjördæmi. Þetta er nú spásaga og ekkert annað. Það má leiða meiri eða minni líkur, en auðvitað getur hv. þm. Dal. enga vissu haft í þessu efni. Það veit hann sjálfur.

Hv. 2. þm. G.-K. gerði mikið úr erfiðleikum þeim, sem eru á að sækja kjörfundi í sveitum. En þeir erfiðleikar, sem hann benti á, eru jafnir að heita má, hvort sem er fyrsta vetrardag eða fyrsta júlí. Þar, sem á annað borð er svo langt á kjörstað, sem hann gerir ráð fyrir, þá er ómögulegt, að alt heimafólkið geti komist, þannig að þeir seinni fari þegar þeir fyrri koma. Jeg benti á í minni frumræðu, hvernig megi úr þessu bæta. Samkv. heimild í núgildandi lögum er heimilt að fjölga kjördeildum. Og breyta má kosningalögunum á þann hátt, að ef veður hamlar, megi hafa fleiri en einn kjördag. Með þessu væri trygt, að sveitabændur geti betur neytt kosningarrjettar síns fyrsta vetrardag en 1. júlí, að öðru óbreyttu.

Jeg átti ósvarað ofurlitlu frá hv. 1. þm. Rang. Hann fór talsvert framhjá aðalefni umr. Jeg efast ekki um, að það sje rjett, að þeir, sem eiga að sækja 30 km. á kjörstað, þurfi að vakna fyrir hádegi. En jeg vil aðeins bæta því við, að þeir, sem eiga að sækja 30 km. á kjörstað, þeir komast þangað ekki, þótt þeir fari á fætur löngu fyrir hádegi, ef þeir eru í því ástandi, að þeir verða að skríða á fjórum fótum.