02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2311 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

47. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Thors:

Það er aðeins til að árjetta það, sem jeg áður sagði. Hv. 4. þm. Reykv. gat þess, að hann væri ekki svo „óhreinskilinn maður — ekki svo óhreinskilinn maður — ekki svo óhreinskilinn maður“, að hann játaði ekki, að vel gæti komið fyrir, að veður hindraði menn frá því að sækja kjörstað. En úr því nú þetta getur komið fyrir og hefir komið fyrir, af hverju er þá verið að spyrja, hvað sjeu mörg dæmi þess? Af hverju leyfa hv. jafnaðarmenn sjer að varpa fram þeirri spurningu? Ef hætt er við, að menn geti orðið sviftir kosningarrjetti sínum, og ef hægt er með flutningi kjördagsins að fyrirbyggja það, þá er það heilög skylda að gera það, Það er afarmikill munur á, hvort menn nenni ekki á kjörstað eða áð kjördagurinn er þannig valinn, að menn eru beinlínis hindraðir vegna illveðurs. Það er heilög skylda hvers þm., sem þetta veit, sem hinn hv. hreinskilni þm. var að segja, að greiða atkvæði með þessum flutningi. Ef eitt dæmi hefir komið fyrir, þá er það nóg. Það getur komið fyrir aftur.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, þá er það ekki rjett, að það sjeu jafnir örðugleikar fyrir sveitamenn að sækja langan veg, hvort sem er á vetrardegi eða sumardegi. Það er alt önnur aðstaða að fara í góðu færi á björtum sumardegi heldur en sækja langt í óveðri og illfæri í vetrardimmunni.

Hitt er svo alveg rjett, að nokkra bót má ráða með því að fjölga kjörstöðum. En að fjölga kjördögum álít jeg aftur á móti að mundi verða mesta vandræðaúrræði.

Jeg hafði gaman af, að þessi hv. þm., sem var að hafa á móti flutningi kjördagsins, rökstuddi nauðsynina til þess að hafa kjördaginn fyrsta vetrardag með því, að þá og þá aðeins kæmi þjóðarviljinn í ljós. Til sönnunar um þjóðarviljann nefndi hann svo síðustu alm. kosningar. En var þá kosið síðasta vetrardag? Nei, kosningar fóru einmitt fram í júlíbyrjun. Ef þær kosningar sýna svona ágætlega þjóðarviljann, þá sýnir það, að dagurinn er vel valinn.

Hvort hv. þm. vill koma í Íhaldsflokkinn, læt jeg mig litlu skifta. Hvort hann þyrfti að breyta jafnt um hugarfar sem framkomu, veit jeg þó ekki. Það var einn góður íhaldsmaður, sem sagði við mig í dag: „Hvar skyldi nú hann Haraldur vera í pólitíkinni inn við beinið?“ Jeg sagði satt að segja: „Jeg veit það ekki“.

En út af fyndni, sem hv. þm. sagði, að það væri ekki nóg að fara snemma á fætur, ef löng væri kjörsókn í sveitakjördæmi — það dygði ekki að fara á fjórum fótum —, þá vil jeg segja það, að á fjórum fótum er nú oftast komist leiðar sinnar í sveitinni, nefnilega með því að setja hest undir sig.