02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2316 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

47. mál, kosningar til Alþingis

Haraldur Guðmundsson:

Jeg leyfi mjer að fullyrða það, að fyrir hv. 2. þm. G.-K. hefir ekki vakað umhyggja fyrir Jóni Baldvinssyni og hans líkum, sem yfir vötn þurfa að fara, þegar hann rjeð af að ljá þessu frv. stuðning. Hinsvegar get jeg vel trúað, að hv. þm. sje þetta ofarlega í huga vegna flokksbræðra sinna sumra. Í þessari för var líka Jón nokkur Kjartansson ritstjóri, og er sú saga af honum sögð, að hann hafi riðið út í sandbleytu á öðrum stað og losnað þar af hestinum við illan leik. Munu þær hörmulegu ófarir þessa flokksbróður hv. þm. vera honum ríkar í huga. Því fremur, sem vatnsfall það, sem ljek Jón Kjartansson svo grátt, var í miðri sveit og í leið á kjörstað, en hitt, sem hv. þm. talaði um í sambandi við flokksbróður minn, greinir hreppa, og þurfa því kjósendur ekki að fara yfir það til þess að sækja kjörfundi.