24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2319 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

47. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get ekki tekið þessi forföll hv. 2. þm. Reykv. mjög alvarlega; hv. þm. hefir haft tíma til síðan 15. mars, þ. e. a. s. meira en mánuð, til þess að gefa út nál., sem hann þó ekki hefir gert, og auk þess er þetta frv. á þskj. 49 komið fram svo snemma hjer á þingi, að það ætti að geta farið að koma á dagskrá og til umr. Jeg er farinn að gruna hv. jafnaðarmenn hjer í deildinni um það, að þeir vilji reyna að bregða fæti fyrir þetta mál, og þeir gera það með þessari mótstöðu, fyrst með því að koma ekki með neitt nál., og svo með því að reyna að hindra, að það sje tekið fyrir, loksins þegar röðin er komin að því á dagskránni. Jeg vil, sem sagt, halda því fast fram, að þetta mál fái loksins að koma til umr., og get ekki skilið annað en að við getum nú farið að hafa svo langa fundi, að hægt sje að ljúka við dagskrána, því að nefndastörf hljóta að fara að minka úr þessu, og þýðir ekki að taka ný mál fyrir í nefndum úr þessu. Jeg skora þess vegna á forseta að taka málið fyrir.