29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2337 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

47. mál, kosningar til Alþingis

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. 2. þm. Árn. virtist álíta, að það væri mjög líklegt, að fjarstæður kæmu frá öldungum, og má vel vera, að svo sje. A. m. k. bendir till. hans á, að þetta sje rjett. Hv. þm. segir, að óheppilegasti tíminn til kosninga sje snemma í júlí, en jeg vil benda honum á, að þegar bændur rjeðu öllu hjer, notuðu þeir dagana síðast í júní og fyrst í júlí til stjórnmálastarfa. Það bendir á þá þjóðarreynslu, að sá tími sje bændum bestur, af því að þá eru þeir helst á milli anna. Þó að það komi fyrir, ef sjerlega vel árar, að sláttur hefjist með júlí, er það hreinasta undantekning.

Hv. þm. sagði, að áður fyr, þegar bændur rjeðu öllum þingsætum, hefðu kosningar farið fram í september. En af hverju rjeðu þeir þá lögum og lofum? Af því að þá kusu ekki aðrir en bændur. Öðru máli er að gegna, þegar helmingur þjóðarinnar býr í kaupstöðum.

Hv. þm. talaði um, að jeg mæti ekki fyllilega þá nauðsyn bænda, að geta stundað sína vinnu, en hann hefði tekið tillit til þess, þar sem hann ætlast til, að kosningadagurinn sje á sunnudegi. Það gætir mikils ókunnugleika hjá hv. þm., ef hann veit ekki, að bændunum eru, eins og dauðanum, allir dagar jafnir, einmitt þegar kominn er þessi tími. (MT: Þeir eiga ekki að eiga hey úti). Hver getur stjórnað því? Guð almáttugur, en ekki hv. 2. þm. Árn. Þegar t. d. er búinn að ganga rosi vikum saman, er blátt áfram ekki hægt fyrir bændur að komast hjá því að eiga hey úti. Og þá er skylda hvers bónda að nota alla daga.

Það er alveg rjett, að það er best að fá sem mest inn af heyjunum framan af sumri, en eins og jeg tók fram áðan, er það ekki altaf, að heyin eru svo snemma til, og þá verður maður að bíða og sætta sig við dutlunga náttúrunnar. Hjer er ekki um að ræða rjetta eða öfuga búskaparstefnu, heldur er það náttúran sjálf, sem setur manni stólinn fyrir dyrnar, ef henni býður svo við að horfa. En þó að heyskap kunni að vera lokið um þetta leyti, koma aðrar annir. Þó að jeg sje ekki kunnugur í Árnessýslu, veit jeg samt, að ef hv. þm. fær vilja sínum framgengt í þessu efni, væru það ekki bændurnir í Árnessýslu, sem rjeðu kosningum þar, heldur menn frá Stokkseyri og Eyrarbakka. Jeg efast ekki um, að þeir gætu verið eins færir til að velja góðan mann á þing, en jeg vil ekki ljá atkv. mitt til þess, að rjettur sje svo augljóslega tekinn af bændum.