29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

47. mál, kosningar til Alþingis

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg get ekki setið hjá, þegar um það er að ræða, hvort fjölmenn stjett þjóðfjelagsins á að njóta fulls rjettar eða ekki. Hjer er deilt um það, hvort verkalýður í kaupstöðum og sjávarþorpum eigi að njóta þess rjettar síns, sem hann nýtur nú. Togstreitan er á milli sveitanna og bæjanna. Jeg hygg, að á bak við þetta standi þessi venjulega tilhneiging, að veikja áhrif verkalýðsins á stjórnmál þjóðarinnar. Jeg vil ekki vera neitt myrkur í máli um það.

Það hafa þegar verið færð nokkur rök fyrir því, hvernig þetta mundi koma niður á hinum ýmsu stjettum. Það hefir verið bent á, að þegar hásumar er komið, er fólk í kauptúnunum hjer sunnanlands komið víðsvegar út um land í atvinnuleit. Fjöldi sjómanna stundar þá síldveiðar og mikill hópur kvenfólks vinnur að þeim. Smábátaútvegsmenn eru þá komnir ýmist norður á Húnaflóa eða Siglufjörð, austur á land eða aðra staði, sem útræði er stundað frá. Og þegar mikið er um vegagerð af hálfu ríkissjóðs, er stór hópur manna að þeirri vinnu hingað og þangað úti um land, stundum uppi á háfjöllum, fjarri öllum mannabygðum.

Það hefir verið minst á stað eins og Vestmannaeyjar, þar sem meiri hluti sjómanna og verkamanna leitar til ýmissa staða í landinu eftir vertíðina. Jeg veit ekki, hvort menn kalla þetta rök, en svona er það. Nú segja menn, að þetta fólk geti kosið áður en það fer að heiman. Oft er það, að framboðsfrestur er þá ekki útrunninn, og þegar atvinna er í boði, er fólki annað í hug en kosningar. Áhugi almennings á stjórnmálum er sama sem enginn á sumrin; öll hugsun fólksins gengur í það að bjarga sjer, eins og það er kallað.

Nú hefir verið talað um, hversu heppilegur tími þetta væri fyrir sveitamenn, fyrst í júlí. En hv. 2. þm. Árn. hefir bent á, að áður hafi 10.–11. september verið álitnir mjög æskilegir dagar til þeirra hluta. Þá var líka kosið á mjög fáum stöðum, en nú er kosið í hverjum hreppi, og heimild til að hafa kjörstaði svo marga í hverri sveit sem nauðsyn þykir til, og bílfærir vegir allvíða. Það er því ekki sambærileg aðstaðan nú og áður. Jeg get ekki sjeð, að svo sterk rök hafi komið fram, að það sje knýjandi nauðsyn að flytja kjördaginn einmitt á þann tíma, þegar allir menn eru fyrst og fremst að hugsa um atvinnu sína.

Jeg var að fara yfir umr. frá þinginu 1915 um kosningar til Alþingis. Jeg sje, að Jón sál. Magnússon hefir þá borið mikla umhyggju fyrir því, að sjómenn gætu notað kosningarrjett sinn. En nú eru bændurnir það eina, sem gildir, eins og bersýnilega hefir komið fram í umr. Nú er svo mikil bændadýrkun, að það er eins og engir menn byggi þetta land nema þeir, sem í sveitum búa. Áður var umhyggja mikil fyrir sjómönnum og öðrum sjávarsíðumönnum, en þá var sama togstreitan um atkv. þeirra hjá hinum stærri flokkum eins og um bændurna nú. Nú líta þessir flokkar svo á, að enginn ávinningur sje í atkv. verkalýðsins við sjávarsíðuna; þess vegna megi þau liggja ónotuð. Þetta er í stuttu máli fjandskapur við Alþýðuflokkinn.

Það er mikið talað um það, og gert að stóru atriði, hvort kosningadagurinn skuli vera á sunnudegi eða virkum degi. Það virðist mjer vera hreinasta aukaatriði. Hitt væri vert að minnast á, að sá dagur, sem kosið er á, skuli ekki vera vinnudagur. Það mun tíðkast í ýmsum löndum. (MG: Hvaða löndum?). Mjer er sagt, að það sje t. d. í Belgíu og víðar. Kjördagurinn á að vera og þarf að vera lögskipaður hvíldardagur.

Jeg hefi þá í stuttu máli sagt frá ástæðunum fyrir því, að mjer finst það glapræði að breyta kosningadeginum, enda hafa engin rök komið fram frá þeim, sem aðallega bera sveitirnar fyrir brjósti, fyrir því, að fólk geti ekki sótt kjörstað á haustin. Það eru fátíð þau árin, sem snjóþyngsli eru svo mikil á þeim tíma, að fólk komist ekki allra sinna ferða. En jeg þykist vita, að hjer í hv. d. sje svo skipað, að mál þetta muni ganga fram, hvað sem sagt verður með rökum á móti. Það eru ekki rökin eða sanngirnin, sem ræður.

Það er nú orðið svo áliðið þings, að jeg vona, að þetta mál fái að sofna í friði í hv. efri deild, enda væri mjög misráðið að ráða nokkru til lykta um þetta mál, meðan með öllu er óafráðið, hvernig kjördæmaskipun og hlutföllum á milli sjávar og sveita verður háttað í framtíðinni. Vel gæti hugsast, að þeim málum yrði svo til lykta ráðið, að ekki þyrfti að vera togstreita milli sjávar og sveita um þetta mál. (LH: Bændur ráða kjördæmaskipuninni ennþá). Já, þeir gera það ennþá, en það getur breytst, og því er best að láta ekki dólgslega af hv. þm., sem greip fram í. Einnig getur færsla kjördagsins beðið þangað til. Jeg held, að þegar hlutbundnar kosningar fara fram um land alt, þá verði minna rifist um kjördaginn, því flokkahlutföllin verða þá alt önnur en þau eru nú. (MJ: Það verður engu minna deilt um hann þá). Jeg hjó eftir því hjá hv. þm. Mýr., að hann sagði, að hv. 2. þm. Árn. vildi ekki flytja kjördaginn vegna Árnesinga, heldur vegna Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Var helst að heyra, að það væri einhver óhæfa að taka tillit til þeirra. Verkamennirnir á Stokkseyri og Eyrarbakka eru nú ekki svo margir, að þeir geti ráðið kosningu í Árnessýslu, enda eru þeir útilokaðir frá því að hafa áhrif á kosningu, með því að hafa kosninguna 1. júlí, því að þá munu þeir flestir vera farnir frá heimilum sínum. í því tilfelli væri því best að hafa kjördaginn 1. júlí, sjeð frá bæjardyrum hv. þm. Mýr. Skárra er það nú frjálslyndið, sem kemur fram í þessari hugsun hv. þm.! Það er hnefinn, en ekki rjettlætið.

Einhver hv. þm. sagði, að bílar rjeðu mestu um kosningar í framtíðinni, og jeg held, að hann verði sannspár. Jeg held, að hægt verði að nota þá fyrsta vetrardag að mestu leyti eins og 1. júlí, þó vera megi, að svo verði ekki í öllum hjeruðum. Ef til vill kemur sú stefna upp að banna að nota bíla í kosningum, vegna þess að það greiði um of fyrir kjósendum að komast á kjörfund.

Það þýðir víst ekki að ræða þetta mál meir, því að það breytir sjálfsagt ekki afstöðu manna til þess; svo ákveðnir munu þeir í að knýja fram ranglætið, sem í þessu felst. En þjóðin mun á sínum tíma dæma um framkomu hv. þm. í þessu máli. Það ber ekki alt upp á sama daginn. (MJ: Þessu verður bráðum breytt aftur).