04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

47. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Mjer fanst hv. 4. landsk. hefði getað sparað sjer ræðu sína við þessa umr. Að öllum líkindum fer málið í n. og sætir þeirri athugun, sem öll stærri mál eiga að fá. Engum blandast hugur um, að hjer er um nauðsynjamál að ræða, og jafnvel hv. 4. landsk. ber ekki á móti því. Einungis fór hann fram á breyt., sem snerti kaupstaðina sjerstaklega. Mjer virðist, að þá færi betur á því fyrir hv. 4. landsk. og flokksbræður hans, að þeir kæmu með þar að lútandi brtt. við frv., í stað þess að berja höfði við steininn og þverskallast við framgangi þarflegs máls. Því verður alls ekki á móti mælt, að núv. kjördagur er svo óhentugur sem frekast getur verið, sjerstaklega ef illa viðrar, sem oft á sjer stað um þann tíma. Sjerstaklega verða sveitirnar norðanlands mjög illa úti, og sama er að segja um Skaftafellssýslurnar. Þar getur oft verið svo ástatt um það leyti, sem kjördagurinn er, að öll hin miklu vatnsföll sjeu full af krapi og elg og með öllu ófær yfirferðar, að ógleymdum hinum gífurlegu fjarlægðum, sem þar er um að ræða. Má því af líkum ráða, hvílíkir örðugleikar eru á því að sækja á kjörstað, enda er mörgum það beinlínis fyrirmunað af þessum orsökum. Enda er einn aðalflm. frv. hv. þm. A.-Sk. Víðast hvar af landinu er sömu sögu að segja. Er þess skemst að minnast, að haustið 1926 fóru fram landskosningar, eins og kunnugt er. Var þá slíkt veður um alt Norðurland á kjördaginn, að í mörgum sveitum komst enginn maður á kjörstað sökum veðurs. Dagana áður hafði kyngt niður ódæmum af fönn og kjördaginn var stórhríð allan daginn, nema hvað rofaði lítið eitt til um hádegið, og örfáar hræður, sem þó síst áttu heimangengt undir þvílíkum kringumstæðum, gátu með erfiðismunum náð kjörstað til þess að kjósa. Jeg veit ekki, til hvers er verið að hafa almennan kosningarrjett upp á það, að kjördagur sje svo valinn, að heilum stjettum þjóðfjelagsins sje gert ókleift að neyta kosningarrjettarins.

Þá talaði hv. 4. landsk. um þá erfiðleika, sem sumarkjördagur bakaði kaupstaðafólki, sjerstaklega Reykvíkingum, þeim, sem leituðu út úr bænum til sumaratvinnu. Það kann að vera nokkuð til í þessu, og viljum við síst verða til þess að auka á óhagræði kaupstaðabúa í þessum efnum, en hitt þykir mjer ekki ósennilegt, að hv. 4. landsk. geri helst til mikið úr þeim erfiðleikum, sem kjördagsfærslan myndi baka kaupstaðafólki. Meðal annars talaði hann um það, ef hreppstjóri væri óliðlegur, þá gæti það orðið til þess að meina manni að kjósa. En jeg vil benda þm. á, að í slíkum tilfellum stendur kjósanda opinn vegur til þess að kæra tafarlaust og fá það leiðrjett. Jeg skal geta þess, að slíkt átti sjer stað á Norðurlandi eigi fyrir löngu, en hlutaðeigandi kærði tafarlaust, og eftir 2 klst. var annar hreppstjóri kominn á laggirnar, til þess að taka við atkvæðunum. Þessi mótbára hv. þm. er því algerlega þýðingarlaus. Í þessu sambandi sagði hv. þm. það líka, að kjósendum væri erfitt að koma atkv. sínu á kjörstað, og jafnvel hefðu ekki tök á að fá vitneskju um það, hverjir væru í kjöri. Þetta er gripið úr lausu lofti. Það eru 4 vikur frá því, er framboðsfresti lýkur og þar til kosningar fara fram. Menn munu því oftast hafa fengið að vita um framboðin áður en þeir fara að heiman, auk þess liggur sími um alt land, svo að mönnum er vorkunnarlaust að fá að vita, hverjir eru í kjöri. Ennfremur er mönnum opinn vegur að greiða atkv. áður en þeir fara að heiman. Að þessu athuguðu held jeg, að hv. þm. geri úlfalda úr mýflugunni, þegar hann talar um þessa erfiðleika og ranglæti, sem kjördagsfærslan hefði í för með sjer. Jeg skal að vísu játa, að vel gæti komið til mála að hafa kjördagana tvo, en mjer finst, að hv. þm. hefði átt að koma með þá till. fyr, eða láta flokksbræður sína í Nd. gera það, þegar frv. var þar til umr. Hjeðan af fer málinu að verða hætt, þar sem mjög er orðið áliðið þings, og óðum líður að þinglokum. Mál þetta þolir enga bið, úr því sem komið er. Hv. þm. talaði um illar hvatir, sem hann taldi liggja frv. þessu til grundvallar. Mjer er ekki ljóst, hvað hv. þm. á við með því. A6 vísu talaði hann ekki um Framsóknarflokkinn í þeim tón, og er það góðra gjalda vert, en Íhaldsflokknum ber hann á brýn, að hann hefði ákveðið kjördag síðustu kosninga með hið sama fyrir augum og nú lægi að baki þessa frv. Jeg skal nú leiða hjá mjer að forsvara Íhaldsflokkinn, en hafi íhaldsfl. haft það í huga þá, þá hefir hann algerlega misreiknað sig, því eins og allir vita, bar hann engan sigur úr býtum við þær kosningar. Og mjer þykir fremur ólíklegt, að þetta hafi vakað fyrir foringjum Íhaldsflokksins. En hvað sem því líður, þá er frv. þetta fram komið nú vegna knýjandi nauðsynjar og til þess að afstýra því hinu hróplega ranglæti, sem meiri hl. þjóðarinnar er beittur með því að hafa svo óhentugan kjördag. Jeg vil því vænta þess, að menn verði ekki til þess að bregða fæti fyrir þetta þarflega mál, og vil skora á n. að athuga það vel og rækilega, svo að það nái afgreiðslu á þessu þingi. Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar við þessa umr., enda mun mönnum gefast tækifæri til þess, þegar málið kemur frá nefnd.