04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2364 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

47. mál, kosningar til Alþingis

Jón Þorláksson:

Hv. 4. landsk. var enn að burðast við að endurtaka hin marghröktu ósannindi sín um óheiðarlegan tilgang stj. með því að ákveða kjördaginn eftir þingrofið 1927 í byrjun júlí. En hv. þm. veit ósköp vel um þá ástæðu, sem þáv. stj. hafði til þess að breyta þannig. Sú ástæða var, að stj. áleit ekki heimilt samkv. stjskr. að draga að láta kosningar fara fram til hausts. Hinsvegar áleit jeg ekki gerlegt að láta kjósa meðan sláttur stóð yfir, og því var þessi tími valinn, og bar jeg ábyrgð á því. Jeg hefi líka oft haft tækifæri til þess að sýna það, að jeg álít einmitt þennan tíma heppilegastan, og það er hann tvímælalaust. Jeg vil því enn einusinni vísa þessum margniðurkveðnu dylgjum til föðurhúsanna.

Það eru einungis tvö önnur atriði í ræðu hv. 4. landsk., sem jeg sje ástæðu til að svara sjerstaklega. Annað var það, að hv. þm. sagði, að Sigurður heitinn Sigurðsson ráðunautur hafi fyrstur stungið upp á núv. kjördegi sem heppilegustum fyrir alt landið. Þetta mun vera rjett, en síðan það gerðist hefir margt breytst hjer á landi. Sú breyt., sem mestu máli skiftir í þessu sambandi, er, að konur hafa fengið kosningarrjett. Áður voru það því eingöngu karlmenn, sem sóttu á kjörstað, og þá var það fyrir sig, þó kosið væri fyrsta vetrardag, en síðan konur fengu líka kosningarrjett, er þessi dagur með öllu óhæfur kjördagur, einnig á Suðurlandi. Auk þess sem veðráttan er mjög tvísýn um þetta leyti, þá er dagurinn orðinn svo stuttur, að fólki til sveita vinst ekki tími til að sækja kjörstað, ef um nokkra vegalengd er að ræða. Kemur slíkt sjer einatt mjög illa, eins og af líkum má ráða, því óvíðast stendur svo á til sveita um þann tíma, að alt heimilisfólkið eigi heimangengt í senn, og sjerstaklega er slíkt bagalegt fyrir eldra fólk. Jeg álít, að ganga verði eitt og sama yfir Norður- og Suðurland hvað kjördag snertir. Hvað viðvíkur óþægindum þeim, sem hv. 4. landsk. talaði um, að kjördagsfærslan bakaði kaupstaðafólki, sem leitaði atvinnu út úr bænum yfir sumartímann, þá skal jeg geta þess, að framboðsfrestur er útrunninn í byrjun júní, og þeir, sem hafa í hyggju að fara úr bænum, geta þá greitt atkv. áður en þeir fara. Jeg get ekkert sjeð því til fyrirstöðu, enda hefjast ekki alment ferðir til atvinnuleitar út úr bænum fyr en rjett um eða fyrir kjördaginn, og örsjaldan fyr en framboðsfrestur er útrunninn, með þeim kjördegi, sem hjer er stungið upp á. En lögin sjá einnig fyrir þeim, sem ekki geta kosið heima áður en þeir fara. Þeir geta komið atkv. sínu á framfæri á þeim stað, þar sem þeir dvelja. Get jeg því ekki talið næga ástæðu til þess að hafa kjördagana tvo, annan fyrir sveitirnar og hinn fyrir kaupstaðina. Hinsvegar mælir öll sanngirni og heilbrigð skynsemi með því að flytja kjördaginn til hásumarsins.