04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2372 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

47. mál, kosningar til Alþingis

Erlingur Friðjónsson:

Jeg lít svo á, að full ástæða sje til að fara hægt í sakirnar með þær breyt., sem felast í frv. á þskj. 470, því að eins og hv. 4. landsk. benti á, eru litlar líkur til, að almennar kosningar til Alþingis fari fram fyr en eftir tvö ár. Jeg vona líka, að mínir góðu vinir samvinnumennirnir fái að sitja að völdum nokkurn tíma ennþá.

Hvað snertir frv. það, sem hjer er til umr., þá virðist mjer undirbúningur þess ekki vera svo góður, að það gæti ekki batnað við frekari athugun. Því til sönnunar má t. d. benda á, að þeir, sem staðið hafa að því, hafa einu sinni ekki verið á einu máli um það, hvaða kjördagur væri bestur fyrir sveitirnar. Þannig kom t. d. fram í hv. Nd. brtt. frá einum hv. þm., sem hefir aðalfylgi sitt í sveitum, að hafa kjördaginn að haustinu, nálægt göngum. Þá ber og þess að gæta, ef hugsa á um það, að kvenfólkið geti sem best notið kosningarrjettar síns, að laugardagur er mjög óheppilegur dagur fyrir það. A. m. k. erum við á Akureyri komnir svo langt, að við sneiðum hjá þeim dögum til bæjarstjórnarkosninga, því að þeir eru mestu annadagar kvenfólksins.

Annars þykir mjer einkennilegt, að þeir, sem eru að hugsa um sem bestan árangur af kosningum í sveitum, skuli fara jafnlangt frá þeim dögum, sem um langt skeið hafa gilt sem flutningsdagar og fardagar fyrir sveitafólkið. Hygg jeg þó, að þeir dagar sjeu valdir af reynslu og þekkingu á því, að það sje hentugasti tíminn til vinnu utan heimilisins. Vinnuhjúaskildaginn er eins og kunnugt er 14. maí, en fardagarnir snemma í júní.

Í frv. þessu er farið fram á, að kjördagurinn sje fyrst í júlí, og er það hentugur tími fyrir þá, sem eingöngu hugsa um sveitirnar, þó jeg telji, að fyrri hluti júní myndi hentugri til kosninganna. En mjer þykir dálítið einkennilegt, að þeir hinir sömu menn, sem þykjast vera að leiðrjetta ranglæti með færslu kjördagsins, skuli ekki geta sjeð það, að sá tími, sem frv. ætlast til að verði ákveðinn, er mjög óheppilegur til kosninga fyrir stóran hluta þjóðarinnar.

Sá kjördagur, sem nú er, er sá hentugasti, sem enn hefir verið fundinn fyrir verkafólk og sjómenn. Jeg tel það því talsvert harðdræga ásælni í garð þeirra manna að færa kjördaginn, án þess að íhugaðir sjeu nánar þeir möguleikar að hafa kjördagana tvo, annan fyrir sveitirnar, en hinn fyrir sjávarþorpin og kaupstaðina. Jeg hefi fyrir löngu komist að raun um, að það myndi verða besta lausnin á þessu máli. Þeir einu af kaupstaðabúum, sem hjer verður að taka tillit til, eru verkafólkið og sjómennirnir, því að verslunarmenn, embættismenn og aðrir slíkir höfðingjar eru altaf heima, nema ef þeir skreppa sjer til skemtunar út yfir pollinn eða annað. Hjer er því um að ræða hagsmuni tveggja stjetta, sveitabændanna annarsvegar og verkalýðsins og sjómannanna hinsvegar. Jeg get nú endurtekið það, að jeg viðurkenni rjett bændanna til þess að fá sinn kjördag út af fyrir sig, og það á hentugum tíma fyrir þá. En eftir því sem hann er í frv., virðist mjer hann ekki heppilega settur fyrir þá. Jeg tel hann of seint að vorinu, og auk þess er hann laugardagur, sem jeg tel mjög óheppilegan kjördag fyrir kvenfólkið.

Það hefir verið minst á kosningarnar 1927 í sambandi við þetta mál, og er ekki óeðlilegt að bera þær kosningar saman við þann anda, sem kemur fram í þessu frv. Tilgangurinn mun hafa verið sá að koma í veg fyrir með þeim kosningum, að kjósendur Alþýðuflokksins í landinu gætu neytt sín við kosningarnar. Þar sem alkunnugt er, að það er fremur lítil vinátta á milli verkalýðsins og íhaldsins í kaupstöðunum, er þetta vel skiljanlegt. Það er vitanlega mannlegur breyskleiki, að vilja tryggja sjer og sínum flokki sem mesta pólitíska hagsmuni, og undrast enginn, þó að slíkar hvatir komi í ljós hjá stj. Íhaldsflokksins.

Jeg þykist sjá, að í þessu frv., sem hjer er nú fyrir þinginu um færslu kjördags til alþingiskosninga, komi hið sama fram og vakti fyrir hv. 3. landsk., þegar hann ákvað að láta alþingiskosningarnar 1927 fara fram í júlímánuði. Það eru flokkshagsmunir, sem valda ákvörðunum hinna ráðandi stjórnmálaflokka í þessum efnum.