04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

47. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Jeg fæ ekki sjeð, að þessi ákvæði í stjskr., sem hv. 3. landsk. vitnaði til, fyrirskipi það, sem hann vildi vera láta. Það stendur í 76. gr. stjskr., að „rjúfa skal Alþingi þá þegar“. En hvenær er Alþingi rofið? Það er gert með brjefi konungs, sem ráðh. undirskrifar. Ef það hefði verið dregið að rjúfa þingið þangað til t. d. tveim mánuðum eftir þingslit, og kosningar gætu farið fram á venjulegum kjördegi. En hvernig færi, ef ætti að skilja þetta bókstaflega, hefi jeg áður lýst. Samkv. stjskr. er ákveðið, að Alþingi skuli að jafnaði koma saman 15. febrúar ár hvert; og hinsvegar er það ákveðið með lögum, að almennar kosningar skuli fram fara 1. vetrardag. Nú stendur Alþingi venjulegast fram í maímánuð. Af þessu má draga þá ályktun, að þó að stjskrbreyt. hafi verið samþ., þá sje hæfilegur kosningafrestur til 1. vetrardags.

— Jeg vissi það áður, að hv. 3. landsk. væri brjóstheill maður. En jeg hjelt nú samt, að hann færi ekki að bregða öðrum um, að þeir ljetu stjórnast af flokkshagsmunum. Það hæfir honum síst allra stjórnmálamanna. (Forseti: Jeg vil minna hv. þm. á, að þetta er aðeins stutt aths.). Jeg veit, að hæstv. forseti verður svo frjálslyndur að lofa öðrum hv. þm. að svara fyrir sig. Jeg hefi nú bent hv. 3. landsk. á framkomu hans og hug gagnvart alþýðu þessa lands, meðan hann var eða áleit sig vera stjórnarherra í landinu.

Hv. 6. landsk. sagði, að af því það hefði verið kosið 1. júlí síðast, 1927, þá hefðu komið fram fleiri atkv. með Framsóknarflokknum í landinu og þingflokkur bænda stækkað. En þess ber að gæta, að atkv. flokksins meðal kjósenda hefir ekki fjölgað í líku hlutfalli við þingfulltrúa flokksins. Hv. stjórnarflokkur má vita, að hann situr ekki að svo mörgum atkv., er svari til 19 eða 20 þingsæta. Það stafar bæði af ranglátri kjördæmaskipun, og í öðru lagi getur það verið fyrir heppni í einstökum kjördæmum, að Framsóknarflokkurinn vann þá svo mörg þingsæti. Það má flokkurinn vita, að sá sigur var ekki unninn af öðrum ástæðum.

Þá minnti hv. þm. á skiftingu Gullbringu- og Kjósarsýslu í 2 kjördæmi, sem samþ. var á þinginu í fyrra. Jeg hjelt nú, að af því að samvinnumenn — og samflokksmenn hv. 6. landsk. — voru okkur jafnaðarmönnum sammála um það mál og áttu sinn þátt í að það gekk fram, þá ættum við ekki að fara að deila um það nú.

Til þess að gert sje ráð fyrir öllum möguleikum, þá getur það vitanlega komið fyrir, að stj. fremji pólitískt sjálfsmorð, eða segi af sjer, og að þess vegna þyki ástæða til að hafa kosningalögin til búin á þann hátt, sem flokkur hennar óskar. Jeg vil nú vona, að stj. fari ekki að gera nein axarsköft, og jeg vil jafnframt vona, að hún og flokksmenn hennar fylgi ekki jafnranglátu máli og þetta er.