04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2381 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

47. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Hv. 4. landsk. taldi, að Framsóknarfl. hefði ekki aukið atkvæðamagn sitt við síðustu þingkosningar. Jeg hygg, að því verði tæplega neitað, að sá þingflokkur, sem kemst í meiri hl., komist það vegna þess, að hann fær fleiri atkv. en andstæðingarnir. Þetta hygg jeg, að ekki verði hrakið.

Þá talaði hv. 4. landsk. um, að við ættum ekki að deila um það, þó að Hafnarfjörður hefði verið gerður að sjerstöku kjördæmi, af því að samvinnumenn hefðu verið því máli fylgjandi.

Jeg vil aðeins segja það, að sú tilvísun nær ekki til mín, hvorki til nje frá. Jeg átti engan þátt í því máli, sem fór hjer fram á síðasta þingi. En þetta breytir ekki á nokkurn hátt þeirri kröfu minni, að það frv., sem hjer liggur fyrir, eigi nú að ganga tafarlaust fram. Við eigum ekki að fresta því til morguns, sem hægt er að gera í dag.