04.04.1929
Neðri deild: 36. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg hefi sára fáu að svara, en finn mjer hinsvegar skylt að þakka hæstv. forsrh. fyrir góðar undirtektir að því er flestar till. n. snertir. Um nafn bankans finst mjer ekki skifta sjerlega miklu máli, og má vel vera, að athugasemdir hæstv. forsrh. um þetta atriði sjeu á rökum bygðar. Hvað 2. brtt. n. snertir, þá kom til orða, að nefndin drægi hana til baka, en þegar á reyndi, náðist ekki samkomulag í n. um það, svo að brtt. verður sennilega að koma til atkvæða. Annars fanst mjer hæstv. forsrh. gera mikið úr þeirri hættu, sem bankanum gæti stafað af lánum til smábátaútvegs. Jeg vil benda honum á þær takmarkanir, sem þar eru settar, ef honum hefir skotist yfir þær. Lánin mega ekki fara fram úr 4000 kr. á bát.

Það er rjett hjá hæstv. forsrh., að ef brtt. n. verða samþ., þá minkar á pappírnum stofnfje veðdeildar bankans, en jeg fæ ekki sjeð, að raunverulegt starfsfje minki neitt, því deildin tekur við meiru af skuldabrjefum viðlagasjóðs heldur en ætlast var til í frv., auk þess sem kirkjujarðasjóður skal ávaxtaður þar, í nokkuð öðru formi þó. Samkv. till. n. breytist brjefaútgáfa deildarinnar, en jeg geri ekki ráð fyrir, að deildin gefi út svo mikið af verðbrjefum á næstunni, að hámark náist, svo að varla getur komið til mála, að starfsfje bankans sje raunverulega skert með þessum till.

Þá var hæstv. forsrh. óánægður með 13. brtt. n., um að 39. gr. falli burt. Benti hann á, að ákvæði um verðbrjef með happvinningum væri í ríkisveðbankalögunum, en þau lög falla nú úr gildi með þessum lögum. Slík brjef með happvinningum eru ekkert annað en ein tegund lotterís, enda þótt hæstv. ráðh. vildi halda öðru fram. N. telur líka, að þetta ákvæði gæti orðið hreint og beint hættulegt fyrir verðbrjefasöluna. Brjefin mundu að vísu sennilega ganga vel út og jafnvel með hækkuðu verði áður en happdrátturinn færi fram, en á eftir mundi verða mikið framboð á þeim, því margir þeirra, er lagt hefðu fje sitt í brjefakaup í von um happvinning, mundu þegar til kæmi ekki geta haft fje sitt bundið á þennan hátt, heldur bjóða brjefin til kaups, jafnvel með afföllum; brjefin því lækka og verð þeirra verða óstöðugt. Gæti þetta með tímanum skapað óvissu og ótrú á brjefunum.

Jeg þarf ekki að svara miklu því, sem hæstv. ráðh. sagði um bústofnslánadeildina og viðvíkjandi till. n. Honum fanst n. hafa verið óþarflega varkár og að óhætt væri að eiga alt slíkt undir stjórn bankans. Jeg geri að sjálfsögðu ráð fyrir, að í stjórn bankans verði skipaðir greindir og gætnir menn, sem sýni varfærni í slíkum efnum. En því aðeins eru sett varúðarákvæði í þessi og öll önnur lög, að ekki þykir þorandi að eiga alt undir mönnunum einum, því þeim getur altaf yfirsjest, og ennfremur getur val þeirra mistekist. Þó er rjett að taka þetta, til nýrrar athugunar.

Viðvíkjandi síðustu brtt. n. og þeim orðum hæstv. forsrh., hvort ekki væri rjett að ganga enn lengra í því að gera bankann óháðan pólitískum dutlungum, þá vil jeg og n. taka það atriði til frekari yfirvegunar, en þó geri jeg ekki ráð fyrir, að nefndin muni gera breytingar í þá átt, sem hæstv. ráðherra talaði um.

Jeg stend ekki betur að vígi nú heldur en í fyrri ræðu minni með það, að taka afstöðu fyrir n. hönd til brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. — 2. og 3. brtt. fela í sjer töluverða efnisbreytingu, en n. hefir ekki haft nægan tíma til að athuga þær, og hefði því talið heppilegra, að hann tæki þessar till. sínar aftur og geymdi þær til 3. umr. Get jeg ekki sjeð, að hann eigi nokkuð á hættu með það, að fá þær samþyktar, þótt hann verði við þessum tilmælum, en um 1. brtt. hans skiftir ekki miklu máli, því að hún innifelur ekki í sjer neina slíka efnisbreytingu.