06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Hannes Jónsson:

Hv. 1. þm. Reykv. hefir lýst yfir því, að þetta sje smámál, og ef það er virkilega meining hans og hans flokksmanna, að svo sje, þá er ekki nema eðlilegt, að þeir hafi ekki rætt það á flokksfundi, eins og hann vill halda fram. (MG: Hann hefir aldrei gefið slíka yfirlýsingu). Jú, hann sagði það, og ef hv. 1. þm. Skagf. hefir ekki heyrt það, þá er það af því að það hefir hlaupið einhver íhaldsloka fyrir eyru hans.

Hv. 1. þm. Reykv. spurði, hvað jeg vissi um það, sem þeir samþ. á flokksfundum og hvað mjer kæmi það við. Um fyrra atriðið þykist jeg hafa fært að minsta kosti óbeina sönnun á það, að hjer hafi verið um flokkssamtök að ræða. Og jeg þykist standa í fullum rjetti mínum að aftra því, að slík ófremdarverk nái fram að ganga. Hv. þm. verður að sætta sig við það, að hann fái ekki óáreittur að spilla jafngóðu máli og Búnaðarbankinn er. Yfirlýsing hans um það, að þetta stóra mál landbúnaðarins hafi ekki verið rætt á flokksfundi íhaldsins, gefur harla litlar vonir um einlægan stuðning úr þeim herbúðum, og svo bætir flokkurinn gráu ofan á svart með því að skjóta þessum nýja kafla inn í frv. í hv. Ed. að alveg óathuguðu máli. Þessi kafli er langverst undirbúinn, eins og líka var við að búast, þar sem jafnaðarmenn áttu frumkvæðið að honum, og svo var honum ungað út af íhalds- og jafnaðarmönnum í sameiningu. Það gat ekki orðið annað en óskapnaður.