16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

47. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Þetta mál hefir nú verið svo lengi fyrir þinginu, að ætla mætti, að flestar hliðar þess væru komnar fram, en þó hefi jeg athugað ýmislegt síðan það kom til Ed., sem enn betur hefir styrkt mig í þeirri trú, að málið eigi ekki fram að ganga.

Sú færsla kjördagsins, sem hjer er farið fram á, er af þeim rótum runnin, að einhver, sem hefir orðið undir í kosningum einhvern ímyndaðan hríðardag, vill nú kenna veðrinu um hinar pólitísku hrakfarir sínar, enda er altaf gott að geta borið einhverju öðru við en fylgisleysi. Það var nú víst Framsóknarflokkurinn, sem einu sinni þóttist hafa orðið að lúta í lægra haldi af þessum ástæðum. Var síðan borið fram frv. á þingi, er gekk í svipaða átt og þetta, en margir framsóknarmenn voru þó málinu andvígir þá, en nú hefir tekist að gera þetta að flokksmáli. Þá hefir og mikill hluti íhaldsins bætst í lið með Framsókn, af því að það taldi, að hjer væri leið fundin til að draga atkv. frá jafnaðarmönnum. Er það pólitískt herbragð hjá íhaldinu að skipa sjer jafnan í fylkingu með Framsókn, þar sem þeir vita, að ágreiningur er á milli hennar og jafnaðarmanna. Er þeim slíkt líklega eðlilegt, því hvað gerir til, þótt þeir sjeu ekki sannfærðir.

Það er auðvelt að sýna, að fylgjendur þessa frv. hafa flestir snúist í málinu. Tveir styðjendur frv. hafa áður stutt að flutningi kjördagsins yfir á 1. vetrardag og núv. formaður Framsóknarflokksins var sá, er einna fyrstur studdi að þeim flutningi kjördagsins. En nú, eftir 20 ár, er Þorleifur Jónsson þm. A.-Sk. orðinn þetta vitrari en Þorleifur Jónsson nefndarmaður frá 1909, sem segir, „að öllu athuguðu“, að heppilegast sje að hafa kjördag 1. vetrardag.

Varla munu þeir, er til þekkja í sveitinni, halda því fram, að veðurfar hjer á landi hafi stórum versnað á þessum 20 árum. Ef nokkuð er, hefir það batnað. Ef best var „að öllu athuguðu“ að hafa kjördaginn á 1. vetrardag 1909, ætti ekki síður hið sama að gilda nú. Jeg vil benda á það, að hv. þm. Seyðf. var á meðal þeirra, sem skrifuðu undir nál. 1909 og lagði til, að kjördagur yrði settur 1. vetrardag. Jeg hefi bent á, að Ólafur Briem, þáv. 1. þm. Skagf., taldi — „að öllu athuguðu“ — rjettast, að kjördagurinn væri 1. vetrardag. Skyldi eftirmaður hans, hv. 1. þm. Skagf. núv. og flm. þessa frv., vera það betur gefinn eða kunnugri, að hann sje dómbærari um málið en Ólafur heitinn Briem?

Það var annað, sem þeir, sem áttu sæti í þingnefndinni 1909, vildu. Þeir vildu ekki níðast á neinum og taka fram um sjómannastjettina á Suðurlandi, að henni sje óhentugur kjördagur að sumarlagi. En nú er tilgangurinn að níðast á því fólki, sem á erfitt með að sækja kjörfund fyrst í júlí. Þetta óskabarn Framsóknar og íhalds er ekki í heiminn borið eða getið af rjettlætistilfinningu, heldur af alt öðrum hvötum.

Jeg veit vel, að hamrað hefir verið á því þing eftir þing, að 1. vetrardagur væri óheppilegur fyrir sveitirnar. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að úr því að kominn væri 1. vetrardagur, væri allra veðra von. En þess er að gæta, að svo getur líka verið á öðrum tímum. Við þurfum ekki annað en að líta út í gluggana til þess að sjá, hvernig veðrið er í dag, 16. maí. Jeg held, að hart sje á því, að það sje kjörfundarveður. A. m. k. gæti jeg trúað, að hv. 2. landsk. þætti ekkert kvenfólksveður vera í dag. Annars er það mín skoðun, að konur sieu fult svo knáar sem karlmenn til landferðalaga.

Þá hefir því verið haldið fram, að kaupstaðabúar, sem ekki eru heima á kjördegi í júlí, geti kosið utan kjörstaðar áður en þeir fara. Sjálfsagt gera kosningar utan kjörstaða eitthvert gagn, en það er alls ekki alment. Menn hafa oft og tíðum ekki tíma til að kjósa áður en þeir fara í sumaratvinnuna. Ráðninguna ber oft bráðan að, og maður, sem ef til vill hefir verið atvinnulaus í 3–4 mánuði, tekur fyrirvaralaust hverja atvinnu, sem gefst, þótt hann þurfi að fara langt frá heimili sínu. Jeg hygg líka, að margur bóndinn kynoki sjer við að fara á kjörfund á þessum tíma, undir mesta annatíma ársins hjá bændum. Miklu líklegra er, að bændur sæki betur kjörfundi á þeim tíma, þegar hvíld er á atvinnulífi þeirra. Sá tími er einmitt um 1. vetrardag, þegar sláturstörfum og haustönnum er lokið. Á þetta var einmitt bent 1909, og þá þótti óheppilegt að velja daginn um bjargræðistímann. Hinsvegar er skiljanlegt, að hinum stærri atvinnurekendum standi á sama, þótt kjördagurinn sje um annatímann. Þeir ráða tíma sínum sjálfir, sem margir verkamenn og jafnvel bændur gera ekki. Hv. frsm. meiri hl. játaði, að erfiðara yrði fyrir fólk í kaupstöðum að sækja kjörfund, ef breytt yrði um kjördag, og allir sjá, að um 1. júlí yrði það einna erfiðast. Jeg get vel skilið það, að bændum hjer á þingi, sem flestir eru hreppstjórar og oddvitar í sinni sveit, sje ósárt um, þó að vinnufólk og verkalýður greiði ekki atkv. sitt á kjördegi. Þeir telja sig, a. m. k. sumir hverjir, sjálfkjörna til að ráða í stjórnmálunum. Þeir, sem efnaðir eru, geta sjálfir riðið á kjörfund og haft einhverja „verkaskjátuna“ heima fyrir sig á meðan. Og hvað þýðir, þótt kosningalög segi, að engum megi hamla frá því að sækja kjörfund, ef yfirmaðurinn segir við verkamann sinn: „Þú getur farið, ef þú vilt, en svo hefi jeg ekki brúk fyrir þig lengur“. Jeg þekki dæmi þess, að slíkt hefir komið fyrir.

Að mínu áliti ætti aldrei að kjósa oddvita eða hreppstjóra á þing. Þeir eru flestir stirðnaðir í framkvæmd um gamalla og úreltra, ómannúðlegra sveitarstjórnarlaga, og staða þeirra í hjeraði hefir ekki skapað þeim það víðsýni, sem þjóðarfulltrúum er nauðsynlegast.

Ef aflað er skýrslna um kjörfundarsókn 1. júlí og 1. vetrardag og þær bornar saman, sjest, að bæði konur og karlar hafa sótt betur 1. vetrardag. Þessar skýrslur eru til um báða dagana frá árinu 1926, frá fyrra og síðara landskjörinu það ár. Ætla jeg, máli mínu til sönnunar, að lesa upp lítið eitt af þessum tölum fyrir þá, sem hlusta vilja á rök í málinu, en ekki eru þegar staðráðnir í því að neyta bolmagns til að koma fram röngu máli.

1926 fór fram landskjör á 3 mönnum 1. júlí, og 1. vetrardag á einum manni. Skýrslur um kjörfundarsókn báða þessa daga sýna glögglega, hvor dagurinn er hentugri. Jeg skal koma að því seinna, að Framsókn taldi ósigur sinn því að kenna, að hinir gáfuðu Þingeyingar komust ekki á kjörfund sökum ófærðar. Sannleikurinn var sá, að aðeins nokkru færri kusu í Suður-Þingeyjarsýslu 1. vetrardag en 1. júlí, og sá fámenni hópur hefði hvort sem var engu ráðið um kosninguna. En nú er best að láta tölurnar tala. Og þær segja, að um 10% fleiri hafi kosið 1. vetrardag 1926 en 1. júlí það sama ár, og þó taka ekki nema tveir flokkar þátt í kosningum 1. vetrardag, en fimm flokkar í júlí. Skal jeg nú sýna fram á mismuninn á kjörfundarsókn í sveitum og kaupstöðum 1. júlí og 1. vetrardag:

1. júlí 1. vd.

Í Borgarfjarðarsýslu kusu 360 858

-

Mýrasýslu 338 344

- Snæfellsnessýslu 344 348

- Dalasýslu 172 408

• Barðastrandarsýslu ...........250 247

• V.-Ísafjarðarsýslu .............. 310 328

• N.-Ísafjarðarsýslu .............. 320 368

- Strandasýslu 166 155

• V.-Húnavatnssýslu .............159 172

• A.-Húnavatnssýslu ............ 873 295

- Skagafjarðarsýslu .............. 500 500

- Eyjafjarðarsýslu 738 751

- S.-Þingeyjarsýslu 749 614

- N.-Þingeyjarsýslu 223 281

- N.-Múlasýslu 396 309

- S.-Múlasýslu 677 658

- A.-Skaftafellssýslu ........... 200 188

- V.-Skaftafellssýslu ........... 221 283

- Rangárvallasýslu 403 696

- Árnessýslu ........................ 590 696

- Gullbringu- og Kjósars..... 1028 1241

Hjer hafa þá verið talin upp sveitakjördæmin. Tölurnar sýna, að 1. vetrardag hafa kosið í sveitakjördæmunum 9231 kjósandi, en 1. júlí aðeins 8512 kjósendur, eða um 700 kjósendum færri. Í Suður-Þingeyjarsýslu, þar sem „Tíminn“ sagði, að hríðin hefði orðið sjer að falli, sækja um 130 færri kjósendur kjörfund 1. vetrardag en 1. júlí. Aftur hefir þeim fjölgað til muna í N.-Þingeyjarsýslu, sem kjörfund sækja 1. vetrardag, og er þó þar ekki langt á milli. Kjósendum í Rangárvallasýslu hefir stórum fjölgað, þeim, sem kusu við seinna landskjörið, og er þó a. m. k. 1. þm. þess kjördæmis eindreginn stuðningsmaður þessa frv., enda þótt hann sje einn þeirra, er skrifuðu undir nál. 1909, þar sem segir, að „að öllu athuguðu“ sje best að hafa kjördaginn 1. vetrardag.

Þá vík jeg að kaupstöðunum. Þar hafa af eðlilegum ástæðum kosið mun fleiri 1. vetrardag en 1l júlí.

1. júlí 1. vd.

Í Reykjavík kusu.. 3739 4638

Á Ísafirði ………... 455 350

Á Akureyri ………. 704 676

Á Seyðisfirði ……. 177 191

Í Vestmannaeyjum 536 613

Vert er að geta þess, að fækkunin á Ísafirði 1. vetrardag stafar af því, að jafnaðarmenn tóku ekki þátt í kosningunum. Var það yfirlýst og öllum vitanlegt; sama gildir um Akureyri. Rjett er og að benda hv. þm. Seyðf. á hina auknu sókn í hans kjördæmi 1. vetrardag.

Þá kem jeg að þeirri ástæðu, sem í fljótu bragði gæti sýnst aðalástæðan fyrir flutningi kjördagsins — þeirri ástæðu, að konur eigi erfiðara með að sækja kjörfund 1. vetrardag.

Jeg hefi einhversstaðar drepið á það, að jeg álít konur eins duglegar til ferðalaga sem karlmenn, og skal nú leyfa mjer að lesa hjer upp skýrslu, sem sannar þetta og tekin er úr skýrslu hagstofunnar og gefur yfirlit yfir kjörfundarsókn kvenna í „góðviðrinu“ 1. júlí og „hríðarveðrinu“ 1. vetrardag 1926. Er skýrslan á þessa leið:

í G.-K. kjósa 437 konur 1. júlí, en 517 1. vetrard.

- Borgf. — 129 — — — — 108 —

- Mýr. — 113 — — — — 106 —

- Snæf. — 127— — — — 106 —

- Dal. — 42 — — — — 179 —

- Barð. — 79 — — — — 67

- V.-Ísf. — 125 — — — — 120 —

- N.-Ísf. — 105 — — — — 113

- Str. — 65 — — — 49

- V.-Húnv. — 52 — — — — 49 –

- A.-Húnv.— 141 — — — — 89 —

- Skagf. — 184 — — — — 179 —

- Eyf. — 272 — — — — 224 —

- S.-Þ. — 301 — — — — 214 —

-N.-Þ. — 77 — — — — 82 —

- N.-M. — 98 — — — — 64 —

- S.-M. — 227 — — — — 187 —

-A-Sk. — 79 — — — — 70 –

-V.-Sk. — 84 — — — — 100 -

- Rang. — 122 — — — — 296 —

- Árn. — 184 — — — — 205 —

Þessi skýrsla er um margt fróðleg. Hún sýnir meðal annars, að í hinu alræmda illviðrabæli N.-Þingeyjarsýslu kjósa fleiri konur 1. vetrardag en 1. júlí. Sömuleiðis sýnir hún, að í hinu afarerfiða vatnahjeraði A.-Skaftafellssýslu er sama sem enginn munur á kjörfundarsókn kvenna þessa daga.

Alls hafa þannig kosið í öllum sýslum landsins 3043 konur um hásumarið 1. júlí, en 3124 í hríðarbyljunum 1. vetrardag. Veit jeg ekki, hvort þetta getur sannfært þennan eina kvenþm., sem hjer er, en það er þá ekki hægt að gera það, ef þessar tölur geta það ekki.

Þá kem jeg að kaupstöðunum, sem flestir hv. þm. vilja ekkert tillit taka til í þessu efni. Er það yfirlit á þessa leið:

Í Rvík kjósa 1805 konur 1. júlí en 2468 1. vetrard.

Á Ísaf. — 225 — — — — 142 — —

- Akure. — 323 — — — — 295 — —

Seyðisf. — 69 — — — — 82 — —

Í Vestm. — 243 — — — — 279 — —

Jeg hefi getið um það áður, af hverju kosningar á Ísafirði og að nokkru leyti á Akureyri voru svo illa sóttar 1. vetrardag í þetta sinn, að það stafaði af því, að einn flokkurinn, jafnaðarmannaflokkurinn, sat hjá við kosninguna.

Þetta yfirlit um kjörfundasókn kvenna í kaupstöðunum sýnir, að alls hafa þar kosið 2665 konur 1. júlí, en 3266 1. vetrardag. Mismunurinn er 601 atkv. En alls hafa á öllu landinu 5708 konur neytt kosningarrjettar síns 1. júlí, en 6390 1. vetrardag. Eða m. ö. o.: Nærri 700 fleiri konur hafa kosið 1. vetrardag en 1. júlí. Er það hjer um bil sama niðurstaðan og var um karlmennina.

Þetta, sem jeg hefi nú skýrt frá, er ljós vottur þess, að 1. vetrardagur er hentugri kjördagur fyrir konurnar en 1. júlí. Þó á jeg ótaldar ýmsar ástæður, sem gerðu það að verkum, að konurnar sóttu ekki betur kjörfund 1. vetrardag 1926 en raun ber vitni. Við landskjörið í júlí 1926 var, eins og allir vita, sjerstakur kvennalisti, auk þess sem konur voru á tveim hinna listanna. Var kona í 3. sæti á íhaldslistanum og 2. sæti á jafnaðarmannalistanum. Alt þetta getur ekki teygt eins margar konur á kjörfund 1. júlí og 1. vetrardag, og var þó þá engin kona í framboði. Jeg veit, að hv. 2. landsk. þm. er mjer sammála um það, að konur muni sækja betur kjörfund, þegar kona er í kjöri, og þær þannig búnar að fá uppfyllta þá kröfu, sem þær hafa haldið fram um langt árabil, að eiga kost á að kjósa konur á þing, en þrátt fyrir allan þann áhuga, sem konurnar sýna þá, eru það færri konur, sem kusu 1. júlí 1926 en í hríðunum og ófærðinni 1. vetrardag það sama ár. Það hlýtur að vera sú ástæða til þessarar niðurstöðu, að konur sjeu í svo miklum önnum 1. júlí, að þær geti þess vegna ekki sótt kjörfund. Þær, sem í kaupstöðunum búa, eru fluttar í burtu, vegna atvinnu sinnar, ýmist upp í sveitirnar eða til sjávarþorpanna, fjarri heimili sínu. Og í sveitunum hafa konur svo annríkt um þetta leyti, að þó að leikið sje við þær og hafður sjerstakur kvennalisti, og konur auk þess í framboði á tveim hinna listanna, getur það ekki lokkað þær á kjörfund. Þeir, sem því vilja flytja kjördaginn til 1. júlí, þeir vilja meina miklum hl. íslenskra kvenna að neyta atkvæðisrjettar síns.

Jeg þykist nú hafa sýnt fram á það, að þetta frv. er ekki flutt til þess að örva kjörfundarsóknina og gera mönnum hægra um vik með að kjósa, heldur í þeim tilgangi að hindra fjölda manna í að neyta atkvæðisrjettar síns, og þó einkum þá menn, sem Alþýðuflokknum fylgja að málum. Það er enginn vafi á því, að það var með þetta fyrir augum, sem íhaldið ákvað að láta síðustu kosningar fara fram 7. júlí, en það dugði nú ekki til — þjóðin var orðin svo leið á því, að það varð í minni hl. samt sem áður. En samt er enginn efi á því, að kjördagurinn hefir dregið úr atkvæðafjölda jafnaðarmanna.

Jeg vík að því, sem sagt var um þetta mál hjer á Alþingi fyrir 20 árum, í nál. mínu, og hvaða menn það voru, sem þá ákváðu kjördaginn. Jeg efast um það, að hv. 1. þm. Skagf., hv. þm. A.-Sk., hv. 2. þm. S.-M. og hv. þm. Seyðf. — svo að jeg nefni nokkra af formælendum þessa frv. — sjeu kunnugri landinu en þeir menn, sem fjölluðu um þetta mál 1909. Sigurður sál. Sigurðsson ráðunautur hafði ferðast um landið þvert og endilangt og var þaulkunnugur Öllum högum og háttum landsmanna. Og hann var fyrsti maðurinn til þess að stinga upp á 1. vetrardegi sem kjördegi. En nú koma þessir makalausu bændavinir og ætla að trompa þá út, Sig. sál. ráðunaut og Ólaf sál. Briem, og þykjast vita miklu betur en þeir. Það er ekki að tala um það hjá formælendum þessa frv., að þeir vilji líta við nokkrum breyt. á þessu frv., heldur á að berja það blákalt fram í því formi, sem Framsókn og Íhaldið hafa komið sjer saman um. Að þeir vilja ekkert samkomulag, heldur eingöngu illindi, sjest best á því, að jafnsjálfsögð brtt. og 635,2 skuli sæta mótspyrnu.

Fyrri till. mín á þskj. 635, sem hljóðar um það að flytja kjördaginn fyrir sveitirnar til 10. september, en láta 1. vetrardag haldast sem kjördag í kaupstöðunum, finnur heldur ekki náð fyrir augum formælenda þessa frv. Þeir finna alt til. Menn geti þá enn átt hey úti til sveita, það geti komið hríðarveður o. s. frv. En hefir þessum mönnum aldrei dottið í hug, að það geti verið vont veður 1. júlí? Það hefir þó komið fyrir, að hríðarveður hafi verið um alt Norðurland 1. júlí. Og svo getur verið slagveður 1. júlí, svipað og er í dag, enda er engu líkara en að slagveðrið sje að minna á sig með því að geisa einmitt í dag. Á því er enginn vafi, að það er erfiðara og leiðinlegra að ferðast í slíku veðri, og menn gera það ekki nema þeir sjeu neyddir til þess, og jeg er hræddur um, að konur til sveita fari heldur ekki út í slagveðursrigningu 1. júlí, ef þær sitja heima í hríðarhraglanda 1. vetrardag. En það eru miklu meiri líkur til þess, að það sje slagveður 1. júlí en hríðarveður og ófærð 1. vetrardag.

Þá skal jeg víkja að því, af hverju jeg álít 10. september heppilegan kjördag fyrir sveitirnar. Jeg býst nú samt við því, að bændurnir í þinginu leggi ekki mikið upp úr því, sem jeg segi, að vel hagi fyrir sveitirnar. Þeim mun þykja jeg of mikill kaupstaðarmaður til þess. Jeg hefi heyrt það haft eftir landbn.mönnum í Nd., þegar þeir frjettu, að kaupstaðarbúi væri kominn í landbn. í Ed., að þessir horkóngar ættu þar ekki heima. Líkl. hafa þeir sagt þetta af því, að sá kaupstaðarbúi, sem er í landbn. Ed., er meðal hinna sárfáu úr landbn. þingsins, sem aldrei hafa felt úr hor. Nú er jeg að vísu alinn upp í sveit, en jeg þykist vita, að ekkert mark verði samt tekið á mjer, af því að það er svo langt síðan jeg hefi dvalið þar. En það vill nú svo vel til, að jeg get borið fyrir „autoritet“ í þessu máli, sem blessaðir bændafulltrúarnir ættu að geta tekið trúanleg. Ólafur sál. Briem, 1. þm. Skagf., einn hinn merkasti maður úr bændastjett, sem verið hefir á þingi, segir um þetta mál 1909:

„Sannast að segja er kjördagur sá, sem nú er í lögum (10. sept.) haganlegur fyrir mikinn hl. landsins, t. d. Norður- og Austurland, en vegna sjómannastjettarinnar á Suður- og Vesturlandi hefir n. þó fallist á að færa kosninguna lengra fram á haustið. Og dugir þá varla minni færsla en til 20. okt., sökum haustanna, er kalla að fram að því tímatakmarki“.

Jeg verð að álíta, að þessi maður hafi haft eins mikið vit á þessu máli og t. d. hv. 6. landsk. þm., sem ljet sitt viskuljós skína hjer við 1. umr., og að þegar hann segir, að 10. sept. sje haganlegur fyrir mikinn hl. landsmanna sem kjördagur, þá sje hann það líka. Annars er það eina úrlausnin, ef þessir hv. þm. vilja vera vissir um, að það sje gott veður á kjördag, að ákveða það með l., að kjördagur skuli vera einhvern góðviðrisdag. Þá geta þeir verið vissir um veðrið, en fyrr ekki. Þó að þeir flytji kjördaginn til 1. júlí, hafa þeir enga tryggingu fyrir góðu veðri.

Jeg get nú að vísu skilið það, að sumum hv. þm. sje illa við 10. sept. Einstaka þm. hefir orðið fyrir óláni á þeim degi, t. d. hv. 3. landsk. þm., sem fjell við kosningar 10. sept. 1908. Hv. þm. Seyðf. hrapaði þá reyndar ekki, en skoðun hans varð í minni hl. Hinsvegar á hv. 2. þm. S.-M. engar slíkar endurminningar frá þessum degi, svo að jeg viti. En þó að það sje skiljanlegt, að endurminningarnar um þennan dag geri það að verkum, að erfitt sje að fá gamla heimastjórnarmenn til þess að samþ. hann sem kjördag, ættu þeir, sem fyrst og fremst hugsa um hag bændanna á Norður- og Austurlandi, að geta fallist á till. Ólafs sál. Briems, og um leið að gera ekki kaupstaðabúum rangt til, en leyfa þeim að halda 1. vetrardegi sem kjördegi. Eins og jeg hefi bent á í nál. mínu, er ekki lengra á milli 10. sept. og 1 vetrardags en að það má vel geyma að telja upp atkv. sveitahjeraðanna til 1. vetrardags, og kemur þá samtímis vitneskja um kosningaúrslit á öllu landinu, svo að úrslit fyrri kosninganna þurfa því ekki að hafa áhrif á síðari kosningarnar. Þess eru líka mörg dæmi, að upptalning atkv. hefir dregist eins langan tíma eða lengri. Jeg minnist þess t. d., að í Barðastrandarsýslu dróst einu sinni — jeg ætla, að það hafi verið 1923 – að telja upp atkv. í 5 eða 6 vikur. Það sama hefir komið fyrir í Eyjafjarðarsýslu og Norður-Þingeyjarsýslu.

Jeg veit það ósköp vel, að Framsóknar- og Íhaldsflokkurinn hafa afl til þess að gera það, sem rangt er í þessu máli, afl til þess að beita kaupstaðabúana ranglæti og veita sveitunum þennan ímyndaða rjett fram yfir kaupstaðina, en ef þessir þjóðþrifaflokkar neyta þessa afls síns — þá öfunda jeg þá ekki af sínum „góða“ málstað.

Þá ætla jeg að víkja að hinni brtt. minni, sem fjallar um það, að kjördagur við almennar, reglulegar kosningar skuli vera lögákveðinn almennur hvíldardagur. Slíkt ákvæði sem þetta álít jeg, að ætti að vera í öllum kosningalögum. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri engin ástæða til að samþ. þetta. Þetta væri nýmæli og auk þess væri ekki víst, að hv. Nd. mundi fallast á það.

Það sjá nú allir, að það er engin ástæða á móti þessu, þó að það sje nýmæli. Það getur verið jafngott fyrir því. Og þetta er svo einfalt mál, að hver maður ætti að geta skilið það, strax og hann hefir lesið till. Það er alkunna, að ýmsir atvinnurekendur eru svo fjandsamlegir stefnu verkamanna sinna, að þeir leyfa þeim ekki góðfúslega að fara og neyta atkvæðisrjettar síns. Þegar verkamennirnir sjá, hvað það kostar að fá þetta sjálfsagða leyfi, verður það til þess, að þeir hliðra sjer hjá því að fara fram á að fá að skreppa til að kjósa, en bíða með það, þangað til vinnutíminn er úti, og þá er kjörfundi ef til vill lokið. Það er og ekki óalgengt, að sumir atvinnurekendur sendi verkafólk sitt eitthvað í burtu rjett fyrir kjördag, lofi því lengri vinnu, ef það fari strax, en ella ekki, o. s. frv. Af þessum ástæðum meðal annars á kjördagurinn að vera lögákveðinn, almennur hvíldardagur.

Þegar verið er að tala um þetta sem flókið nýmæli, sem vafasamt sje, að Nd. fallist á, þá skil jeg ekki lengur. Jeg skil ekki í því, að Nd. sje svo þunn, að hún geti ekki gert sjer það ljóst. Ef menn því vilja reyna að sýna einhverja sanngirni, þá hljóta þeir að fallast á brtt. mína. Ef ekki, ef þeir ætla að þröngva því í gegn að hafa kjördaginn 1. júlí, þá er enn meiri ástæða til að samþ. síðari brtt. mína. Kjördagurinn verður þá á svo miklum annatíma, að hætt er við að margir sæki síður kjörfund nema hann verði á löghelguðum hvíldardegi. Jeg veit ekki, hvernig þeir þm., sem kosnir eru af kaupstöðum og fella báðar þessar brtt. mínar, ætla að afsaka sig á dómsdegi. Hvernig fara þeir að því, að afsaka þetta við kjósendur. Ef þeir segja sannleikann, yrði það eitthvað á þessa lund: Við fluttum kjördaginn til þess að gera ykkur bölvun! Við vildum ekki einu sinni hafa hann hvíldardag, það var of mikil sanngirni í ykkar garð!

Nd. geti ekki afgreitt málið, þó frv. verði breytt hjer, er ekkert nema yfirskin. Það á víst svo mikilli velvild að fagna, þótt nú sje liðið á þingið, að ekki er hætt við öðru en að afbrigði fengjust fyrir það, þótt það gengi til Nd. aftur.

Jeg þykist nú hafa fært sterkar og óhrekjandi ástæður fyrir því, að mönnum er engu hægra að sækja kjörfund í sveitum fyrst í júlí en 1. vetrardag. Það sýna þær tölur, sem jeg hefi hjer lesið upp og sem vonandi ekki verða rengdar, þar sem þær eru frá hagstofunni. — Hitt er jafnvíst, að með því að samþ. færsluna er framið hróplegt ranglæti við mikinn fjölda verkalýðs í kaupstöðum og kauptúnum.