16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2416 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

47. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi flutt hjer brtt., öllu fremur þó til að marka afstöðu til þessa máls í framtíðinni heldur en að jeg búist við, að hún hafi áhrif á málið eins og það liggur nú fyrir. Jeg hafði áður, er jeg átti sæti í allshn., reynt að miðla málum og haldið fram, að enginn einn kjördagur væri heppilegur fyrir alt landið, og sú skoðun kemur fram í þessari brtt. minni, sem jeg ef til vill tek þó aftur, áður en til atkvgr. kemur, af því að jeg óska ekki eftir að vinna málinu skaða á því stigi, sem það nú er.

Jeg held, að ekki verði um það deilt, að þeir aðilar, sem helst hafa átst hjer við, þeir hv. frsm. meiri hl. og hv. 6. landsk. annarsvegar og hv. frsm. minni hl. hinsvegar, hafi haft mikið til síns máls. Þó geri jeg nokkurn mun á afstöðu þeirra. Jeg hygg, að enginn sanngjarn maður geti neitað því, að ef einn kjördagur á að vera fyrir land alt, þá eigi hann að vera á þeim tíma, þegar náttúra landsins er þannig, að óhugsandi er annað en að allir geti komist ferða sinna. Jeg vil taka undir það með hv. frsm. meiri hl., að vel getur komið fyrir slík stórhríð á fyrsta vetrardag, að mikill hluti kjósenda í sveitum geti ekki kosið. Jeg minnist þess, að í æsku minni komu fyrir á þeim tíma slíkar hríðir, að oft var ófært milli bæja jafnvel dögum saman.

Það er auðvitað ekki því að neita, að í júní og júlí geta verið vond veður, eins og t. d. 7. júní í fyrra, þegar halda átti skemtisamkomu við Þjórsárbrú, sem lítið varð úr vegna stórrigningar. Þá var veðrið svo vont, að hjólreiðamenn hjeðan úr Reykjavík urðu veðurteptir á Kolviðarhóli. Það geta verið slæm veður á sumrin, en þó er það ekkert í samanburði við illviðrin á haustin. Jeg hefi áður minst á það, sem Sigurður heitinn Sigurðsson sagði við mig á fyrsta vetrardag 1919. Hann hafði þá lengi verið þm. Árn., en þann dag sagði hann: „Nú fell jeg í dag, því að það er vonskuhríð í uppsveitum Árnessýslu, en þar á jeg einmitt mitt besta fylgi“.

Jeg álít, að sú skoðun, sem hv. 4. landsk. hjelt fram, að bændur gætu sætt sig við fyrsta vetrardag, sje bygð á ósanngirni gagnvart þeim mönnum, sem búa í miklu strjálbýli. Það mun altaf verða litið svo á, að fyrsti vetrardagur sje óhæfur kjördagur fyrir menn í flestum hjeruðum landsins. Jeg skal að vísu ekki segja um Gullbringu- og Kjósarsýslu, því að þar er yfirleitt mild veðrátta og undir fáum kringumstæðum hægt að búast við stórhríðum þar, en víðast annarsstaðar er hægt að búast við þeim hvenær sem er á þeim tíma árs. Það kemur ekki málinu við, þó að þetta hafi ekki orðið að miklu tjóni nú í nokkur skifti. Það er altaf hægt að búast við, að svo verði. Jeg álít, að ekki sje hægt að búast við öðru en að altaf verði uppi sterkar raddir um það frá bændum, að þessum miður heppilega kjördegi verði breytt. Hinsvegar hefi jeg altaf viðurkent, að það er ekki gallalaus aðferð að lögfesta þennan ákveðna kjördag fyrir alt landið, vegna hins mikla mannfjölda úr kaupstöðum og sjávarþorpum, sem eru þá í fjarlægum verstöðvum eða úti á sjó. Fyrir þær stjettir er fyrsti vetrardagur mjög hentugur kjördagur. Nú er yfirleitt sú stefna uppi hjer á Alþingi að lögfesta einn allsherjarkjördag, og ef svo á að vera, þá er sjálfsagt að hafa hann heldur 1. júlí en fyrsta vetrardag, því að með því er framið minna ranglæti.

Út úr þessu er ekki nema ein leið, og hún er sú, að hafa kjördagana tvo, annan á vorin fyrir sveitirnar, en hinn á haustin fyrir kaupstaðina. Það eru þó nokkrir erfiðleikar á þessu, en jeg hygg, að þá megi yfirstíga. Jeg geri auðvitað ráð fyrir, að talið verði upp eftir hverja kosningu, svo að hægt sje að vita, hverjir hafi komist að, en hitt hefir sumum dottið í hug, að geyma atkv. þangað til búið væri að kjósa í öllum kjördæmum. Jeg býst við, að mönnum þyki þessi leið ekki fýsileg nú, er menn hallast helst að einum allsherjarkjördegi.

Það er í raun og veru bæði íslensk og útlend venja, að það geti verið fleiri kjördagar. Um 1900 og eitthvað þar áður rjeði hver sýsla, hvenær kosið var hjá henni, og þá gat frambjóðandi, sem fjell í einu kjördæmi, riðið yfir í það næsta og ef til vill náð kosningu þar. Þetta gafst vel hjer, og jeg sje ekki, að það sje neitt sjerstakt, sem gerir það nauðsynlegt að hafa sama kjördag fyrir alt landið. Í Svíþjóð var það venja fyrir nokkrum árum að láta kjósa marga daga í röð, og þá tók það kringum mánuð að kjósa til þings, og frjettir af upptalningu atkv. komu á hverjum degi. Þó eru engar slíkar kringumstæður í Svíþjóð eins og hjer, og ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu þar að hafa einn kjördag fyrir alt landið.

Jeg vildi aðeins benda á þessa millileið, en það getur vel verið, að jeg taki brtt. mína aftur, en jeg spái því samt, að þetta vandamál verði ekki endanlega leyst nema með málamiðlun. Ef þetta frv. verður samþ., þá er jeg fús til þegar á næsta þingi að vera með þeirri breyt., að vorkjördagur verði aðeins fyrir sveitirnar, en kaupstaðirnir fái jafnframt þann kjördag, sem hentugastur er.