16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2439 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

47. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg þarf að svara hv. 4. landsk. þm. nokkrum orðum. Hann sagði, að rök mín fyrir þessu máli væru ekki annað en hugboð og ímyndun. Er það hugboð, að það sje lengri dagur 1. júlí en 1. vetrardag? Eða þá það, að von sje meira illviðris 1. vetrardag en 1. júlí? Nei, þetta eru staðreyndir, sem ekki þýðir að mæla á móti.

Þá sagði hann, að það væri skjalfest reynsla, að 1. júlí væri heppilegri kjördagur en 1. vetrardagur. Mun hann þar hafa átt við þann samanburð, sem hann gerði á kosningunum 1. júlí og 1. vetrardag 1926. Það er nú um þessar tölur eins og aðrar tölur, að útkoman fer eftir því, hvernig dæmið er reiknað. Jeg segi ekki, að þessar tölur hv. 4. landsk. þm. sjeu rangar, en hinn leyfi jeg mjer að halda fram, að það sje hæpið að draga ályktanir af þessum tölum út af fyrir sig. Það hafa oftar farið hjer fram kosningar 1. júlí en 1926; síðustu almennar kosningar fóru þannig fram 1. júlí. En jeg hefi ekki haft aðstöðu til að kynna mjer, hversu vel sú kosning var sótt, vegna þess að þau gögn, sem þar að lúta, eru óprentuð. Mjer þykir þó ekki ósennilegt, að hluttakan í þeirri kosningu hafi verið miklu meiri en í kosningunni 1. vetrardag 1926. En eins og jeg hefi bent á áður, þarf að taka meira en kosningasóknina í eitt skifti, ef byggja á á þessum grundvelli.

En aðstaðan breytist ár frá ári. Jeg get t. d. bent á það, sem jeg rak augun í í dag. Kjósendum fjölgar ekki svo lítið frá því í júlí og fram í okt. Í mínu kjördæmi fjölgaði kjósendum um 20 á þessu tímabili árið 1926. Það er óteljandi margt, sem taka verður til greina, ef á að fá rjett út úr þessum samanburði. Jeg hefi ekki rannsakað, hve miklu þessi fjölgun nemur um land alt, en þetta sýnir, að ekki má taka þessar tölur og reikna með þeim eins og í einföldu reikningsdæmi.

Jeg er þakklátur hv. þm. fyrir skýringu þá, er hann gaf á ummælum sínum um þá atvinnurekendur, er beita vinnufólk sitt þeim ókjörum að svifta það atvinnu, ef það ætlar að neyta kosningarrjettar síns. Hann gat þess, að það ætti sjer aðallega stað við sjávarsíðuna. Jeg endurtek það, að jeg veit þess ekki dæmi, en jeg staðhæfi ekkert um, að það geti ekki verið rjett fyrir því. En færsla kjördags kemur þessu máli ekkert við. Það má alveg eins beita þessu bragði 1. vetrardag sem 1. júlí.

Þá vildi hann gera lítið úr því, sem jeg sýndi fram á í dag, að kosningin á Ísafirði 1926 sannaði, að áhugi kjósenda væri áhrifamestur. Og sannar það dæmi glögglega, hversu ákaflega lítið er á tölum hans að byggja.

Hv. þm. vildi gefa það í skyn, að kjósendur úr mínu kjördæmi hafi látið það í ljós, að þeir teldu færslu kjördags vera sjer í óhag. Það getur vel verið. En jeg get sem kunnugur maður fullyrt, að það er mjög óvíða, sem þar stendur svo á, því þar er lítið um menn, er fara í atvinnuleit í aðrar sveitir. En ekki síst í því kjördæmi er hægra að sækja kjörfund í júlímánuði en í skammdeginu, því þar hagar víða svo til, að yfir sjó er að fara. Og það eru minni örðugleikar að fara yfir firði fram og aftur, þegar birta er allan sólarhringinn, eða þegar einungis er bjart þriðjung hans. Hann sagði, að kjósendur viti best, hvað þeim sjálfum hentar, en vilji kjósenda liggur ekki fyrir öðruvísi en gegnum fulltrúa. Og það er ekki ástæða til að ætla, að fulltrúar líti öðruvísi á þetta mál en meginþorri kjósenda.

Hv. þm. sagði, að afstaða okkar fylgismanna frv. væri einstrengingsleg og við vildum alls ekkert samkomulag. Það hefir nú að vísu reynt lítið á það. Sæi jeg einhverja samkomulagsleið, þá er jeg ekki mótfallinn því, að hún verði reynd.

Ekki get jeg sjeð, að færsla kjördags nálgist það, er hv. þm. nefndi hana, rjettarrán. Því í sjálfu sjer er ekki tekinn rjettur frá neinum kjósanda, þó hann sje að heiman í atvinnuleit. Lögin áskilja þeim fullan rjett. Þeir eiga einungis í dálítið meiri örðugleikum með að koma atkv. sínu til skila. Og hitt eru öfgar, að 65 þús. manns sjeu rændir rjetti með þessu! Í fyrsta lagi er enginn rændur rjetti, eins og jeg hefi sýnt fram á, og í öðru lagi eru ekki til 65 þús. manns á öllu landinu, er hafa kosningarrjett, því síður að það sjeu 65 þús. kjósendur í kaupstöðum landsins. Hv. þm. veit. þetta vel, og þó jeg hafi fylgt honum í því að rýmka kosningarrjettinn, þá vil jeg ógjarnan ganga svo langt að veita hann börnunum í vöggunni. Jeg vil a. m. k. frábiðja mjer þann heiður að hafa gert það. En þessi ummæli hans urðu ekki skilin öðruvísi en svo, að verið væri að ræna börnin í vöggunni rjetti.

Hv. þm. sagði, að við vildum ekki leysa málið á þeim grundvelli að hafa kjördagana tvo. Jú, það viljum við gjarnan leyfa, ef það fær samrýmst. En það verður tæplega hægt að leysa málið á þessum grundvelli á þessu þingi. Því þess verður vel að gæta, að á þann hátt verður málið tæplega leyst, með öðru móti en að taka til yfirvegunar öll lög, er það snerta, og samræma þau. Og jeg er ekki eins sannfærður og hv. 3. landsk. um, að það þurfi að leiða til þess, að þingið verði einhverntíma vanskipað, verði kjördagarnir tveir. Það er hægt að komast hjá því með því móti að miða kjörtímabilið ávalt við seinni kjördaginn. En þetta hefir lítið verið hugsað og lítið rætt og er því erfitt að tala um það, enda verður þessari lausn alls ekki beitt á þessu þingi.