16.03.1929
Efri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og nál. á þskj. 106 ber með sjer, þá leggur sjútvn. það til, að frv. nái fram að ganga með 2 brtt. Sú fyrri er, að í stað þess sem lagt er til í frv. að ríkisjóður greiði helming kostnaðar. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir aðalreglan verið sú, að ríkið hefir lagt fram 1/4 kostnaðar við þau hafnarmannvirki, sem gerð hafa verið. Að vísu mun hafa verið vikið frá þessari reglu í einu tilfelli. Er það við hafnargerð í Borgarnesi. En þar er um meira að ræða, svo ekki er hægt að segja nákvæmlega um hlutföllin, enda stendur sjerstaklega á þar. Sjútvn. viðurkennir nauðsyn hafnargerðar á Skagaströnd, en telur ekki rjett að ganga eins langt eins og í frv. er gert með framlag ríkissjóðs. Þó telur rjett, að nokkuð sje vikið frá venjunni, og leggur því til, að ríkið leggi fram 1/3 kostnaðar. Er það aðallega með hafnleysi það, sem Húnavatnssýsla á við að búa fyrir augum.

Hin brtt. er fram komin vegna þess, að ekki þótti rjett að binda viðlagasjóði þá skyldu á herðar að lána til slíkra fyrirtækja, því svo gæti farið, að viðlagasjóður annaði ekki slíkum lánum, ef það væri gert að venju. Það er líka spurning, hvort hagur væri að því ákvæði fyrir hafnargerðina að binda þetta með lögum. Það kynni að vísu að verða um betri lánskjör að ræða, en yrði naumast til að flýta fyrir framkvæmdum verksins. Annars er ekki frekara um þetta að segja. Frv. er að öðru leyti bygt líkt og önnur frv. um sama efni og n. hefir ekki sjeð ástæðu til að gera neinar brtt. við það. Hafnargerð þessi er nauðsynjamál og það er álit sjútvn., að frv. eigi fram að ganga.