06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

enda skal jeg ekki lengja þær mikið.

Mjer þykir það næsta undarlegt, að hv. 1. þm. Reykv. skuli heimta það, að landbn. gefi upplýsingar um, hvaða ástæður liggja til þess, að hv. Ed. ákvað þetta hlutfall um smábýlalánin. Jeg er ekki viss um, að þessi hv. þm. viti sjálfur hvaða hugsanir búa í brjóstum annara manna, og er því hart, að hann skuli heimta það af mjer. Satt að segja sje jeg ekki, að hv. Ed. hafi haft neina skynsamlega ástæðu til að gera smábýlunum þannig hærra undir höfði heldur en öllum öðrum fasteignum í landinu.

Hitt er auðvitað mál, að nefndum þingsins ber skylda til að athuga þau mál, sem til þeirra er vísað, sem allra best, og það vona jeg, að landbn. hafi gert í þessu máli. Eins og hv. dm. heyrðu, gerði jeg grein fyrir brtt. landbn. í dag, og hefi engu við það að bæta, enda er þetta atriði ekki það stórmál, að vert sje að hafa um það langar umræður,

Hv. þm. Borgf. fann ástæðu til þess að fara að tala um störf landbn. þessarar deildar, og jafnframt, hve mikil störf hver flokkur hefði lagt fram í n. Jeg leyfi mjer að efast um, að hann viti nokkurn hlut um þetta. Jeg get að vísu með gleði vottað það, að þeir íhaldsmenn, sem sæti eiga í n., unnu með alúð og samviskusemi að þessu máli, eins og öðrum málum, sem n. hefir haft til meðferðar. Get jeg því þakkað þeim fyrir góða samvinnu. En ef hv. þm. Borgf. hefir með þessu ætlað að gefa í skyn, að við Framsóknarmenn höfum unnið ver, þá skil jeg ekki í, að flokksbræður hans í nefndinni taki undir það; kann jeg illa við það af utannefndarmanni, að vera með svona meting.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að þessi nýi kafli um smábýlin er kominn inn í frv. vegna samtaka Jafnaðarmanna og Íhaldsmanna í Ed. Jeg get því ekki annað sjeð en að hv. 1. þm. Reykv. eigi hægan aðgang að því hjá flokksbræðrum sínum að fá að vita ástæðurnar fyrir því, að þetta var gert, enda þótt svo kunni að vera, að ekki hafi verið talað um það á flokksfundi.