21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við frv. þetta á þskj. 173. Jeg þarf ekki að tala langt mál fyrir henni, því hún skýrir sjálf hlutverk sitt. Brtt. á að tryggja það betur en gert hefir verið með frv., að mál þetta verði vandlega íhugað áður en hafist er framkvæmda. Í frv. er gert ráð fyrir því, að sýslan takist ábyrgð á hendur vegna fyrirtækisins, er nemi að upphæð alt að 1/2 milj. króna. Er það allstór upphæð fyrir tiltölulega lítið sýslufjelag. Virðist mjer því varhugavert, að einn sýslufundur geti með máske eins atkv. meiri hl. tekið ákvörðun um að vinna verkið og bundið sýsluna þessari ábyrgð. Er því gert ráð fyrir í brtt. minni, að til þess að takast ábyrgðina á hendur þurfi samþ. tveggja aðalfunda sýslunefndar og 2/3 atkv. til samþykkis. Lýsi sjer eindreginn áhugi innan hjeraðs um hafnargerðina, verður þetta öryggisákvæði tillögunnar ekki því til fyrirstöðu, að hafist verði handa um framkvæmdir. Meining mín er aðeins sú, að fyrirbyggja fljótræði um svo kostnaðarsamt fyrirtæki.

Síðari brtt. á þskj. 173 er engin efnisbreyt., heldur borin fram vegna þess að mjer fanst betur fara á, ef till. mín verður samþ., að síðari málsliður 2. gr. verði sjerstök málsgr.