21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Erlingur Friðjónsson:

Það var ekki ætlun mín að taka til máls, en umr. hafa gert það að verkum, að jeg vil fara um mál þetta fáum orðum.

Jeg vil þá byrja með því að kasta fram þeirri almennu aths., að þegar ríkissjóði er ætlað að leggja fram fje til einhvers fyrirtækis. verður að gera sjer grein fyrir því, hvað honum er fært í því efni. Framundan er margt sem gera þarf, og ef greiða á helming kostnaðar úr ríkissjóði við hafnargerð á Skagaströnd. mun það koma í ljós, að ýmsum hliðstæðum fyrirtækjum er eigi síður þörf á slíku tillagi. Með þetta fyrir augum hefir mín till. eigi getað orðið hærri en svo, að ríkissjóður legði fram 1/3 kostnaðar, í stað þess sem honum er ætlað að greiða helming kostnaðar eftir frv. og 2/5 eftir till. á þskj. 154. Get jeg ekki, fyr en búið er að rannsaka, hvað gera þarf fyrir ýmsa aðra hafnleysustaði, gengið lengra en sjútvn. lagði til, að ríkissjóður legði fram 1/3 kostnaðar. Er það einnig hærri upphæð en ríkissjóður hefir lagt fram annarsstaðar, eins og sjá má á nál. sjútvn. og tekið hefur verið fram við umr. þessa máls. Mjer dettur í hug í þessu sambandi staður einn nálægt Skagaströnd, sem er Sauðárkrókur. Höfn er þar mjög slæm, en lagt hefir verið í að byggja þar öldubrjót, sem verið hefir til nokkurra bóta. Þykir mjer líklegt, að ríkissjóður þurfi að sinna þeirri höfn ekki síður en á Skagaströnd, því að aðstaðan er hin sama til fiskimiða, en hafnarstaður verri og kaupstaður nokkru stærri en á Skagaströnd.

Þá kem jeg að því atriði, er aðallega kom mjer til þess að taka til máls, en það voru ummæli hv. 3. landsk. gegn 3. lið till. á þskj. 154. Telur hann ósamræmi í því, að gert er ráð fyrir í till., að taka megi alt að 1/2 hlut af hverjum vjelbáti, sem er 8 smálestir að stærð og stærri, en 1/4 hlutar af smærri mótorbátum og róðrarbátum. Af því að jeg á dálítinn þátt í þessum lið till., þótt jeg sje ekki beint flm. hennar. vil jeg benda á það, að það er mikill munur á því, hvort afli bátanna á að skiftast í t. d. 14 staði eins og er á stærri vjelbátum, eða 3–4 staði. Hlutfallslega verður þá meira tekið af smábátunum, ef tekinn er 1/2 hlutur, en af stærri bát, sem skiftir í fleiri staði. Jeg nefndi 3 hluti í sambandi við róðrarbátana, og á jeg þar við, að tveir menn rói. Skiftist afli þá milli þessara tveggja manna, en þriðja hlut fær bátseigandi, — bátshlut.

Frá sjónarmiði okkar, er að till. þessari stöndum, munar það miklu, hvort afli skiftist í fáa eða marga staði, og því er till. fram komin, og vildi jeg því skýra þetta fyrir hv. d.