22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 4. þm. Reykv. taldi, að myndað væri fast fordæmi um framlag úr ríkissjóði til slíkra framkvæmda, sem hjer er um að ræða, ef látið væri standa óbreytt það atriði eins og hv. Ed. gekk frá því. En þegar þess er gætt, að í sjálfu stjfrv. er gert ráð fyrir helmingi, virðist vera sanngjarnt að fara þennan meðalveg á milli stjfrv. og till. hv. þm.

Út af ummælum hæstv. ráðh. vil jeg leggja áherslu á, að þó að brtt. okkar sjeu ekki stórvægilegar, gera þær þó málið mun auðveldara fyrir þá sýslu, sem á hlut að máli. Jeg vil benda á, að jeg hygg, að ekki sje í neinum hafnarlögum gefið það fordæmi, að þessarar aðferðar sje hægt að krefjast. Og í frv. stj. hefi jeg ekki getað komið auga á neitt slíkt ákvæði. Jeg veit ekki, hvort jeg á að skoða það sem vantrúarvott á nytsemi fyrirtækisins, að hæstv. ráðh. er svo umhugað um að láta þetta ákvæði standa, sem smeygt var inn í hv. Ed. Við flm. höfum samt sannfærst af rökum stj.frv. og viljum fylgja því fram án þessa bagga, sem vitanlega gerir það miklu erfiðara fyrir sýsluna að hrinda þessu nauðsynjamáli í framkvæmd.

Eins og jeg benti á í fyrri ræðu minni, er alveg þýðingarlaust að ætla tveim sýslufundum í röð að gera bindandi samþykt um þetta efni, nema sú sýslunefnd, sem einu sinni hefir fjallað um það, verði uppleyst og önnur komi í staðinn. Að öðrum kosti sje jeg ekki annað en að þessi tvöfalda samþykt sje humbug. Það, að slík samþykt sje ekki eldri en tveggja ára, þegar ábyrgðin er veitt. gæti líka orðið til þess, að ríkisstj. gæti dregið verkið úr hömlu, með því að veita ekki ábyrgðina. Jeg skil ekki, í hvaða skyni þessir fleygar eru settir inn. Það er ekki venja að setja slík skilyrði, og ef maður lítur á málið eins og við sjútvn.menn, sem mikið nauðsynjamál, eru slík ákvæði til óþarfa trafala. Enda er það sæmileg trygging, að hafa fengið áskorun frá sýslunni. Einnig er þess að gæta, að hæstv. stj. flytur þetta sem stjfrv. Þetta hvorttveggja eru sterk rök fyrir því, að hjer sje um mikið þjóðþrifafyrirtæki að ræða, því að frv. til hafnarlaga eru oftast flutt af einstökum mönnum.