22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg vil segja út af ræðu hæstv. fjmrh. Mjer þótti satt að segja nokkuð einkennileg aðstaða hans til þessa máls, þegar þess er gætt, að hjer er um stjfrv. að ræða. En máske má skýra það með því, að hæstv. fjmrh. átti ekki sæti í stj. þegar frv. þetta var samið. Mjer virtust koma sterk rök fram hjá hæstv. stj. fyrir nauðsyn þessa frv., þegar það var lagt fyrir Alþ. Get jeg því ekki skilið, hvers vegna hæstv. stj. vill nú leggja hömlur á málið. En það virðist mjer vera gert svo sem auðið er í 2. gr. frv., að því einu máske undanskildu, að ætlast væri til, að framkvæmd verksins komi ekki til greina fyr en í óvissri framtíð. Samkv. 2. gr. þarf ekki nema litla andstöðu til að skjóta framkvæmd verksins á frest, hver veit hve lengi. Hæstv. fjmrh. sagði, að þessi till. væri komin frá sjer og borin fram með samþykki þeirra tveggja hv. þm., er heimili eiga í A.-Húnavatnssýslu. Vitaskuld er það ekki mitt áform að vera á móti því, að hæstv. stj. sje varkár í þessu máli sem öðrum málum. En þegar maður lítur á það, að hæstv. stj. er svo sannfærð um nytsemi þessarar framkvæmdar, að hún flytur frv. sjálf, þá er einkennilegt, að hún vill nú leggja þær hömlur á framkvæmd fyrirtækisins, eða a. m. k. líður þær, sem nú eru í 2. gr. frv.

Það mun nú ekki rjett að eyða tímanum í langar deilur um þetta. Verður best að láta atkv. skera úr. — Mjer finst, þar sem hæstv. fjmrh. kannaðist við það, að ekki væri hægt að leysa upp sýslunefndina og láta fara fram kosningar að nýju á milli þessara tveggja funda, sem eiga að útkljá þetta mál, þá játaði hæstv. ráðh. þar með, að þetta ákvæði væri þýðingarlaust. Ef sýslunefndarmennirnir samþ. þessa ábyrgð í eitt skifti, munu þeir, þ. e. hinir sömu menn, vafalaust samþ. hana í annað sinn. Verður því þessi tveggja ára hemill þýðingarlaus fyrir öryggi samþyktarinnar, en aðeins trafali fyrir málið. Mál þetta verður vafalaust athugað án þess. Og verði það af hjeraðsbúum álitið nauðsynja og nytjamál, verður það samþ. Vil jeg því ekki, að tafið sje fyrir framkvæmd þess að óþörfu.