22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2494 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. frsm. meiri hl. vitnaði oft til þess, að þetta væri stjfrv., og sagði, að stj. mundi ekki hafa flutt það nema hún hefði haft trú á, að þetta væri gott mál. Þetta er auðvitað rjett. En það voru fyrstu tildrög þessa máls, að hv. þm. A.-Húnv. flutti á síðasta þingi frv. í Ed. um hafnargerð á Skagaströnd; og þau urðu afdrif þess, að því var vísað til stj. með þeim fyrirmælum, að hún ljeti fram fara rannsókn á staðháttum. Þær rannsóknir voru gerðar síðastl. aumar, og ávöxturinn af því er þetta stjfrv., sem lagt var fram í Ed. í þingbyrjun.

Þegar um þessa hafnargerð er að ræða, þá lít jeg svo á, að hún sje ekki hliðstæð við aðrar hafnarbætur, sen gerðar hafa verið. Hjer liggur als önnur og djarfari hugsun á bak við heldur en við aðrar hafnargerðir. Hjer eru sem sje aðeins nokkrar landbúnaðarsveitir, sem að þessari hafnargerð standa og eiga að taka á sitt bak mikinn ábyrgðarbagga til þess skapa nýja höfn og nýjan bæ. Enginn gerir sjer vonir um, að höfnin muni geta borið sig, nema þar komi upp allfjölmennur bær eða sjávarútvegsstöð.

Af því að þarna hefir ekki verið um að ræða nema landbúnað og sjósókn í smáum stíl, þá er því meiri ástæða til að fara hægt á stað og varlega og búa sem tryggilegast um fjárhagshlið málsins. Því að það er vitanlegt, að ef sýslufjelagið getur ekki fullnægt þeim skuldbindingum, sem það tekur á sig, þá kemur til kasta ríkissjóðs að greiða þann hluta kostnaðarins líka. Þess vegna verður þingið að setja skynsamlegar öryggisráðstafanir um undirbúning þessa máls, til þess að verja ríkissjóð gegn tapi af því, ef illa færi. Jeg segi þetta ekki af því að jeg vilji setja fót fyrir þetta stjfrv., þó að jeg vilji koma þessum ákvæðum inn í það til þess að tryggja sem best undirbúning málsins. Jeg hefi trú á, að hjer sje um gott mál að ræða, en vil, að unnið sje að því á þeim grundvelli, að engin mistök þurfi á því að verða. Hjer er um stórvirki að tefla, þar sem á að reisa nýja höfn, nýjan bæ og nýja útgerðarstöð.