22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það er náttúrlega hreint ekki góð aðstaða fyrir þm. úr fjarlægum hjeruðum að mæla fram með þessu máli, með það fyrir augum, að menn úr hjeraðinu sjálfu andmæla því og telja á því öll tormerki. Þrátt fyrir yfirlýsingu hv. þm. V.-Húnv. um, að hann vilji ekkert hafa á móti þessu máli, þá skín í gegnum orð hans fullkomin vantrú á fyrirtækinu og framkvæmdamöguleikum hjeraðsins, sökum misbresta á samvinnu hjeraðsbúa um þetta mál, og efi um staðinn, hversu heppilegur sje. Þetta álit hv. þm. vona jeg, að sje bygt á misskilningi. En, sem sagt, þar sem þetta kemur frá glöggum og gætnum manni með staðarlegri þekkingu á málavöxtum í hjeraðinu, þá verður ekki hjá því komist að kannast við, að slík skoðun slái óhug á þá, sem ekki eru kunnugir staðháttum.

En það vill nú svo vel til, að fleiri menn úr Húnavatnssýslu hafa lýst skoðun sinni á þessu máli, svo að hv. þm. V.-Húnv. hefir ekki tekist að hrekja mig frá þeim grundvallarskoðunum, sem jeg hefi myndað mjer um það. Stj. hefir líka látið sitt álit í ljós í grg. frv., og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa þetta upp:

„Stjórnin er á þeirri skoðun, að það sje þýðingarmikið mál fyrir aðliggjandi hjeruð og landið í heild sinni, að góð höfn væri á hentugum stað við Húnaflóa austanverðan, sem nú er hafnlaus. Frá höfn á Skagaströnd mundi verða gott samband við hjeruðin í Húnavatnssýslu, þar sem nú er orðið mikið af bílfærum vegum. Og sem síldveiðahöfn mundi Skagaströnd sjálfsagt geta haft mikla þýðingu. Útflutningur á kjöti er einnig mikill úr Húnavatnssýslu, og yrði það til mikillar tryggingar fyrir kjötútflutninginn, einkum á frystu kjöti, að fá góða höfn á Skagaströnd“.

Jeg geri ráð fyrir, að það hafi enginn þau gögn í höndum, að hann geti lagt út í deilu til þess að sanna það reikningslega, að þetta fyrirtæki sje örugt með að bera sig. Það er að heyra á mótmælum hæstv. fjmrh. og vantrú hv. þm. V.-Húnv., að þeir skoði þetta fyrirtæki þess eðlis, að það eigi að sýna fram á það í upphafi, að það geti borið sig fjárhagslega. Af því munu vera sprottnar dylgjur hv. þm. V.-Húnv. um, að hjeruð hafi ráðist í mannvirki og fyrirtæki, sem ekki stóðust áætlun, og sem þau gátu ekki staðið straum af. En í ýmsum tilfellum getur það hafa stafað af náttúrunnar völdum.

Jeg lít á þessi mannvirki frá öðru sjónarmiði og legg mest upp úr þeim áhrifum, sem þau hafa á atvinnulífið í hlutaðeigandi hjeraði og landinu yfirleitt. Hafi menn góða trú á þessu máli, eins og hæstv. stj., þá á ekki að vera að gera leik til þess að setja í það fleyga eins og þá, sem skotið hefir verið inn í 2. gr. frv. og sem auðsjáanlega hljóta að draga úr framgangi málsins. En við hv. 2. þm. G.-K. álítum, að þeir eigi ekki að vera þar til að spilla fyrir málinu.