22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Hannes Jónsson:

Mjer finst háttv. frsm. leggja meiri alúð við að telja hv. þd. trú um, að jeg sje að mæla á móti frv., heldur en að flytja sjálfur meðmæli með því. Jeg hefi ekki sagt annað en það, að jeg vildi gera ráðstafanir til að tryggja sem best fylgi við málið í hjeraðinu. Þá hefi jeg tekið það fram, að margt hefir verið gert á Blönduósi, sem heimskulegt var að ráðast í þar, ef höfn á að koma á Skagaströnd. Þessum mannvirkjum á Blönduósi hefði átt að fresta, ef það var ætlun hjeraðsbúa að byggja höfn á Skagaströnd. Þetta hlýtur hv. frsm. að hafa heyrt. Og þó að hv. þm. tali mikið um, að stj. sje þessu máli fylgjandi, þá breytir það ekki minni afstöðu. Það virðist hneyksla hv. þm., að jeg skuli ekki hafa alveg sömu skoðun á málinu og stj. Jeg veit ekki, hvort hann hefir talið sjer það skylt að vera sammála sinni íhaldsstj. í öllum efnum. En að því leyti er fullkomið samræmi milli mín og stj. í þessu máli, að þegar vaknaður er almennur áhugi fyrir því í hjeraðinu, þá á ekki að hindra framkvæmd þess. En jeg vil benda á, að málið hefir nú fremur lítið fylgi í sýslunni; þess vegna hefir miklu fje verið varið til að bæta höfnina á Blönduósi, af trúleysi á það, að höfn yrði bygð á Skagaströnd; að öðrum kosti væri bryggjubygging á Blönduósi hrein vitleysa.

Það virðist ástæðulaust að ræða þetta mál öllu lengur; jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. ljái því fylgi sitt vegna þess, að þeir hafi trú á, að það sje rjettmætt framfaramál, en láti það ekki til sin taka aðeins af pólitískum ástæðum. Mjer virtist það koma óþarflega bert fram hjá hv. 2. þm. G.-K., að afstaðan til málsins væri pólitískt lituð. Út af því varð mjer ósjálfrátt að hvarfla huganum til landsfundar íhaldsmanna, sem haldinn var hjer í bænum fyrir skömmu. Þar voru mættir fulltrúar úr Húnavatnssýslu, sem eru stuðningsmenn þessa fyrirtækis, eins og margir aðrir í hjeraðinu, og ekki er ósennilegt, að hv. 2. þm. G.-K. hafi orðið fyrir áhrifum frá þeim í þessu máli. En það eru ekki fulltrúarnir á íhaldsfundinum, er áttu að hafa þau áhrif á háttv. þm., heldur skynsamleg íhugun málsins. Þá sagðist hv. þm. vera hálfhikandi síðan hann fjekk þessar upplýsingar hjá mjer. Jeg verð að segja, að það er nokkuð lausleg athugun, ef hann hefir ekki aflað sjer annara upplýsinga en hjá þessum mönnum, þegar um jafnstórt mál er að ræða. — Jeg hefði getað fylgt þessu máli, ef Austur-Húnvetningar hefðu farið skynsamlega að og ekki lagt í stórkostnað á Blönduósi, heldur horfið frá viðskiftunum þar og flutt þau út á Skagaströnd. Mjer finst fyllileg ástæða til þess að efast um, að Austur-Húnvetningar hafi mikinn áhuga fyrir þessari hafnarbót, þar sem þetta stóra frystihús hefir verið bygt á Blönduósi. Jeg sje ekki, að það greiði fyrir útflutningi á frystu kjöti, þótt gerð verði höfn að Skagaströnd, nema þá úr Vindhælishreppi, en þar er kjötmagn lítið. Það verður ekki fyr en frystihúsið á Blönduósi verður lagt niður.

Jeg hefi svo ekki fleira að segja, og nú get jeg ekki borið það oftar af mjer, þótt hv. frsm. kunni ennþá að segja, að jeg sje á móti þessu máli. (JJós: Jeg er dauður). Þá tekur hv. 2. þm. G.-K. ómakið af hv. frsm. En það er undarlegt, að það er eins og það sje eitthvert stórpólitískt atriði fyrir þessum hv. þm., að fá það staðfest, að jeg sje á móti málinu. Jeg endurtek þá yfirlýsingu mína, að jeg mun greiða atkvæði með því.