29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Magnús Guðmundsson:

Jeg þarf ekki að segja margt, því brtt. mín hefir fengið svo góðar undirtektir. Aðeins skal jeg taka það fram út af því, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, að það er rjettur skilningur, að með þessu ákvæði um stundarsakir sje ekkert hróflað við öðrum ákvæðum frv. Það framlag, sem þar er gert ráð fyrir, er aðeins hluti af öllu því framlagi, er þarf til hafnarbótanna.

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, skal jeg geta þess, að fyrir mjer vakir svipað og hann nefndi, nefnil. það, að leyfa íbúunum að byrja á hafnargerðinni og láta þá svo sjálfráða um það, hvort þeir vilja halda áfram. Er alls ekki víst, að þeir kæri sig um meira til að byrja með. Hinsvegar vil jeg ekki láta taka neinn rjett af þeim, ef þeir kæra sig um að gera meira. Það getur vel verið, að aðsóknin að þessum stað smávaxi. Ættu þeir þá ef til vill hægra með það síðar að halda áfram, er þeim hefði vaxið meiri fiskur um hrygg.

Jeg heyrði ekki vel till. hv. 2. þm. Reykv., er var lesin hjer upp áðan. En jeg er ekki viss um, að hennar sje þörf, því í lögum frá 1917 er heimild fyrir kaupstaði að taka eignarnámi vissar eignir, er teljast verða nauðsynlegar fyrir kaupstaðinn, en jeg skil þessa brtt. svo, sem það sje meiningin, að hreppurinn eignist þessar lóðir. Eða er það ekki svo? Ef það er hafnarsjóður, sem á að eignast þær, þá gæti jeg búist við, að það yrði þröngt um fje hjá honum til þess að byrja með, og jeg er því alls ekki viss um, að hreppsnefndin muni kæra sig um þessa heimild hafnarsjóði til handa. En hinsvegar þarf hann auðvitað ekki að nota heimildina frekar en hann vill. Jeg hygg, að þetta sje samt sem áður óþarft, því það er hægt að ná því sama eða svipuðu með 1. frá 1917.