29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Hjeðinn Valdimarsson:

Það eru aðeins örfá orð út af því, er hv. þm. Vestm. sagði. Jeg hygg, að ekki þurfi að taka það fram, hvernig þetta eignarnám á að fara fram, þar sem til eru sjerstök lög um það, nefnil. 1. nr. 61, 1917, sem eru algerlega tæmandi um þetta efni. Mig undrar, að menn skuli vera á móti þessari brtt, okkar. Það er þó venja, þegar menn ætla að láta framkvæma eitthvert verk, að þeir kjósi að hafa það svo vel undirbúið, að sem mestur og bestur hagnaður geti orðið af því. Og það getur aldrei orðið til skaða, að hið opinbera geti tekið til sín þá verðhækkun, er verður þarna á löndum og lóðum, er kaupstaður rís upp þarna. Það getur að vísu orðið nokkuð langt í land, að þarna komi upp fullkomin höfn. En það eitt er víst, að ef bygð verður höfn fyrir 600 þús. kr., þá rís þarna upp annar Siglufjörður og öll verslun A.-Húnavatnssýslu færist yfir á þennan stað. Er þá auðskilið, að þeir, er eiga þarna lóðir, fá ekki lítinn hagnað af þessari hafnargerð, algerlega óverðskuldað, þar sem öll verðhækkunin væri af völdum hins opinbera, hafnargerðinni. Vænti jeg, að hv. deild verði svo framsýn að girða fyrir, að blómlegur kaupstaður, er þarna gæti risið upp, og íbúar hans yrðu um aldur og æfi hneptir í viðjar fárra landeigenda.