02.05.1929
Efri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Jón Jónsson:

Þetta frv. um hafnargerð á Skagaströnd er komið hingað aftur frá hv. Nd. Jeg get lýst því yfir fyrir mitt leyti, að jeg get verið ánægður með afgr. hv. Nd. á frv., því þau atriði öll, sem mestu máli skifta, hafa fengið að haldast óbreytt. Og jeg get hiklaust haldið því fram, að það hafi verið lagar í tveimur atriðum, sem máli skifta. Annað er það, að hækkun á lóðaleigu á nú að ná til alls landsins, sem að höfninni liggur, sbr. 11. gr. 2. lið. Þetta tel jeg tvímælalaust til bóta, enda hefir það verið gert í samráði við hv. þm. kjördæmisins og mig. Hin breyt., sem jeg tel, að líka sje til bóta, er sú, að ríkisstj. er heimilt nú að veita 50. þús. kr. úr ríkissjóði, gegn jafnháu tillagi annarsstaðar frá, án þess að bera það undir Alþingi, ef hafist yrði handa í smærri stíl, þannig að gerð yrði höfn fyrir smærri báta, sem svo aftur mynduðu tekjustofn fyrir hafnarsjóðinn. Þetta er mikils virði, og er jeg þakklátur hv. Nd. fyrir afgreiðslu hennar á frv. Mjer hafði að vísu flogið svipað í hug, en þorði ekki að koma fram með það hjer í þessari hv. deild, af ótta fyrir því, að það mundi máske tefja fyrir frv.

Þar sem breyt. þær, sem hafa verið gerðar á frv., eru að mínu áliti til bóta, þá vil jeg mæla með því, að það verði samþ. hjer óbreytt.