20.02.1929
Efri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2518 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

23. mál, gjaldþrotaskifti

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Frv. um þetta efni var borið fram á þingi í fyrra og nálega í sömu mynd og nú. En það kom nokkuð seint fram þá og vanst eigi tími til að athuga það til hlítar. En af því að efni þess er hv. þdm. kunnugt, get jeg verið stuttorður um það að þessu sinni.

Jeg skal aðeins geta þess, að tilgangurinn með frv. er fyrst og fremst sá, að tryggja hagsmuni þeirra manna, sem fje eiga inni í gjaldþrotabúum, betur en áður hefir verið gert í Íslenskri löggjöf.

Með vaxandi fjölbreytni viðskiftalífsins hjer á landi, sem nú er að færast í svipað horf og í hinum stærri löndum, hafa gert vart við sig ýmsar tegundir spillingar, sem fyrrum var hjer óþekt, eða bar a. m. k. mjög lítið á.

Í þetta frv. eru tekin upp ýms ákvæði, sem vel hafa reynst í Englandi og átt drjúgan þátt í að hindra fjármálaspillingu þar. Eitt þessara ákvæða er um það, að jafnskjótt sem bú er lýst gjaldþrota skuli það tekið til nákvæmrar athugunar af dómara á staðnum. Þetta á að koma í veg fyrir, áð menn, sem ætla sjer að græða á gjaldþroti, hafi tíma til að skjóta undan fje og byrja síðan atvinnurekstur á nýjan leik án þess að greiða rjettmætar skuldir.

Að svo mæltu legg jeg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.