02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2522 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

23. mál, gjaldþrotaskifti

Frsm. minni hl. (Jóhannes Jóhannesson):

Eins og hv. frsm. meiri hl. hefir tekið fram, hefi jeg ekki getað orðið sammála meiri hl. um, að frv. þetta verði að lögum á þessu þingi. Ástæðurnar fyrir þessari afstöðu minni hefi jeg tekið fram á þskj. 221, og býst jeg við, að hv. deild hafi kynt sjer þær. Það er ekki svo að skilja, að jeg telji vanþörf á að endurskoða löggjöf þá, sem hjer er um að ræða, heldur að jeg tel undirbúningi frv. ábótavant. Hjer er um vandamikið mál að ræða og svo flókið, að erfitt er fyrir hv. þm. að gera sjer hugmynd um það. Ef frv. er ekki vel undirbúið, er tæplega á færi hv. deildar að bæta úr ágöllum þess, þótt hún sje skipuð hæfum mönnum. Tíminn til að athuga málið hjer er stuttur og hv. þm. störfum hlaðnir.

Hv. frsm. meiri hl. mintist á einn galla, er verið hafði á frv. í fyrra, en nú hefði verið lagfærður. Það mun rjett vera, að svo hafi verið gert, en það eitt, að slíkur galli sem þessi skyldi nokkurn tíma slæðast inn í frv., finst mjer benda til þess, að sá maður hafi um það fjallað, sem ekki sje hægt að treysta í þessu efni. Jeg hefi bent á nokkra galla á þskj. 221, en tel þó óvíst, að jeg hafi þar tínt til alla galla frv., því að jeg hefi ekki haft nægan tíma til að kynna mjer frv. Sama er að segja um lögmanninn og lögreglustjórann í Reykjavík, að tími sá, 2–8 dagar, sem þeir höfðu til að kynna sjer málið, var alt of stuttur. Enda kemur þetta ljóst fram í brjefi lögmanns, þar sem hann segir: „Jeg skal strax taka það fram, að mjer hefir alls ekki unnist tími til að athuga svo nokkru nemi nýmæli frv. þessa ....“ Lögreglustjóri segir: „Mjer sýnist við fljótan yfirlestur .... “ og telur hann sig því eigi hafa haft nægan tíma til að athuga frv. heldur. Finst mjer því, þótt þeir bendi eigi á fleiri galla á frv. en þeir gera, að eigi sje örugt, að þeir sjeu ekki fleiri.

Þótt málið sje gott í sjálfu sjer, tel jeg af framantöldum ástæðum rjettast að vísa því til stj. að þessu sinni, og láti hún svo lögfræðinga, sem hægt er að bera traust til, eða helst lagaprófessora háskólans fjalla um það. Jeg skal taka það fram, að mjer er ókunnugt um, hver samið hefir frv., en mjer finst það bera vott um, að hann hefir ekki verið starfi sínu vaxinn. Jeg tel brtt. meiri hl. allar til bóta, en þar sem jeg kom eigi sjálfur með ákveðnar brtt., mun jeg eigi fara frekar út í nál. mitt, en leggja til, að málinu verði vísað til stj. Jeg skal geta þess, að jeg hefi ýmislegt fleira að athuga við frv. en jeg hefi tekið fram í nál. mínu, t. d. að í niðurlagi 40. gr. stendur: „Skylt skal og að lúka skiftum .... eftir gildistöku laga þessara“ — í staðinn fyrir: þeirra. Jeg er sammála hv. frsm. meiri hl. um, að langar umr. hafi ekki neitt að þýða og lýk því máli mínu með ósk um, að málinu verði vísað til stjórnarinnar til frekari undirbúnings.