29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

23. mál, gjaldþrotaskifti

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal ekki eyða löngum tíma í að ræða þá meðferð, sem höfð hefir verið í n. á þessu máli, enda hefir hv. 2. þm. Árn. lýst yfir því, að hann hafi verið að endurgjalda undangengna meðferð á sjer. Þarf þar ekki framar vitnanna með. En hv. 2. þm. Árn. verður að gæta þess, að eins standi á, þegar hann ætlar að breyta eftir reglunni gömlu: auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. En svo var ekki í þessu tilfelli. Jeg þykist vita, að hv. 2. þm. Árn. eigi við afgreiðslu frv. um lögreglustjóra á Akranesi — öðru er ekki til að dreifa. En það náðist ekki til hans, þegar það mál var afgr. í n., vegna þess að hann var þá ekki hjer í bænum, heldur austur á Eyrarbakka, auk þess sem það mál var mjög umfangslítið og hafði verið athugað grandgæfilega í allshn. í fyrra í sambandi við annað mál, frv. til l. um lögreglustjóra í Nesi í Norðfirði. Aftur á móti er þetta mál eitt af stærri málum þingsins. Jeg vil þó biðja hv. 2. þm. Árn. að taka þetta ekki svo, sem jeg hefði haft mikla löngun til að sökkva mjer ofan í þetta mál. Jeg ann honum þess fullkomlega að hafa lagfært það, sem þessu frv. er áfátt um, og bera svo ábyrgðina á því, sem enn kann áfátt að vera, þó að síðar komi í ljós.

Jeg vildi breyta niðurlagi 36. gr. Jeg hefi verið skiftaráðandi, eins og hv. 2. þm. Árn. er nú, og jeg hefi reynslu fyrir því, að það getur komið fyrir, að ekki sje hægt að skifta búi á ákveðnum tíma. (MT: Þessu var breytt í Ed., en þær breyt. hafa enn ekki verið færðar inn í frv.). Ef svo er, skal jeg ekki fara frekar út í þetta atriði.

Jeg er sammála hv. 2. þm. Árn. um það, að rjett muni að skoða þessa rannsókn sem ex tuto rannsókn, að hálfu leyti sem opinbera rannsókn og að hálfu leyti sem præventiva rannsókn. En þá leiðir af því, að ríkissjóður á að borga þann kostnað, sem af henni leiðir. Mjer skildist á hv. 2. þm. Árn., að hann liti ekki svo á, að hver, sem gjaldþrota yrði, væri fyrirfram bendlaður við óheiðarleika. Af því leiðir sömuleiðis, að rannsóknin eigi að greiðast af opinberu fje.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að ríkið yrði að bæta sýslumönnum þann halla, sem þeir biðu af vaxtatöpum samkv. þessum l. Það kann að vera. En jeg held, að hjer sje ekki um neina verulega upphæð að ræða. Og sjálfur gat hv. 2. þm. Árn. þess, að hjá sjer næmi þessi upphæð sama sem engu. Eftir því, sem jeg þekki til til sveita, nemur þetta sáralitlu. Það fje, sem sýslumenn hafa undir höndum, gengur út og inn. Þeir verða að hafa nokkurn sjóð og hafa því alt fjeð saman. Og jeg vil skilja ákvæði þessa frv. um ávöxtun búafjár svo, sem það gildi ekki nema þar, sem peningastofnanir eru. Það vantaði nú bara, ef fara ætti að skylda sýslumenn til að senda smáfjárhæðir langar leiðir til þess að koma peningunum á vöxtu, þannig að burðargjaldið næmi ef til vill eins miklu og inn kemur í vöxtum. Hvorki erfingjarnir nje skuldheimtumennirnir hafa nokkurn rjett til að heimta, að sýslumennirnir hafi alt fjeð á vöxtum. Það nær engri átt að heimta það, hvort heldur sem er af sýslumönnum eða ríkinu, að þeir beri kostnaðinn af þessum peningasendingum fram og aftur. Það verður að aka seglum eftir vindi í þessu máli sem öðrum og láta sömu reglur gilda í þessu efni sem í hinu almenna viðskiftalífi manna á milli. Meira en það verður ekki með nokkurri sanngirni heimtað af skiftaráðendunum.