23.02.1929
Efri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 3. landsk. lagði mikla áherslu á það, hve mál þetta væri illa undirbúið frá stj. hálfu. — Má vera, að það sje rjett að ýmsu leyti, en jeg hefi áður gert grein fyrir því, að fyrirkomulag þessarar stofnunar hlyti að verða því nokkuð háð, hvaða maður fengist til þess að veita henni forstöðu.

Hinsvegar játaði hv. 3. landsk., að mál þetta væri mjög merkilegt, og þótt hann hafi setið í stjórn landsins í 4 ár á undan mjer, var undirbúningur þeirrar stjórnar sá, að gera ekkert í málinu.

Undirbúningur núverandi stjórnar er hinsvegar sá, að snúa sjer til manns, er gæti veitt stofnuninni forstöðu, og auk þess hefir hún borið málið fram á þingi við fult fylgi búnaðarþings. Og þótt þessum undirbúningi kunni að vera nokkuð ábótavant, verður hann að teljast miklu betri en sá, er málið fjekk hjá hæstv. fyrv. stjórn.