10.05.1929
Efri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2567 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

77. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Halldór Steinsson):

Þetta frv. fer fram á að bæta inn í símakerfið nýjum línum, sem ekki eru nú í símalögunum. Eins og menn geta sjeð, er frv. nú orðið mjög breytt frá því það var lagt fyrir hv. Nd. Þegar deildin hafði málið til meðferðar, þurfti svo að segja hver einasti þm. að bæta einhverju inn í frv., til hagnaðar sínu kjördæmi. N. hefir nú ekkert sjeð athugavert við að samþ. að nýjar línur sjeu teknar inn í símakerfi landsins. Enda hafa báðar n., sem frv. hafa haft til athugunar, leitað til landssímastjóra og fengið álit hans um frv. Er hann frv. meðmæltur í öllum verulegum atriðum. Í þeim tilfellum, sem hann hefir eitthvað haft við frv. að athuga, þá hafa nefndirnar fullkomlega tekið það til greina, svo að það er nú að mestu leyti í samræmi við skoðanir lands símastjóra. Ef þessar breyt. á síma kerfinu ná fram að ganga, þá eru hinar nýju línur nálægt 560 km. að lengd. Auk þess hefir n. lagt til, að bætt verði við nokkrum símalínum, að lengd kringum 50 km., eða rúmlega það. Ef það verður samþ., nema þessar línur alls um 600 km. og yrði kostnaður við lagning línanna upp undir 400 þús. kr., ef reiknað er með 600 kr. kostnaði á km. Loks bætist við brtt. frá hv. þm. A.-Húnv. um að taka inn í frv. línu, kringum 40 km. langa.

Þegar nú litið er á það, að í fjárl. eru veittar 360 þús. kr. til símalagninga, en allur lagningarkostnaður þessara lína, sem frv. getur um, er ekki nema liðug 400 þús. kr., þá getur tæplega talist stórlega varhugavert að samþ. frv. þetta. Það er ekki svo að skilja, að þessar línur skuli allar leggjast á næstu árum, heldur aðeins þegar fje er fyrir hendi og aðrar kringumstæður leyfa. N. telur því rjett að leggja til, að frv. verði samþ. En eins og jeg gat um, þá hefir n. lagt til, að við 1. gr. bættust símalínur þær, sem um getur í brtt. n. á þskj. 530. Við höfum leitað umsagnar landssímastjóra um þær línur, og leggur hann eindregið með því, að þær sjeu teknar upp í frv.

Að því er snertir brtt. hv. þm. A.- Húnv., þá hefir n. ekki tekið afstöðu til þeirra, vegna þess sjerstaklega, að hún hefir ekki átt kost á að bera þær undir landssímastjóra. En hv. flm. hefir tjáð mjer, að hann hafi gert það og fengið góðar undirtektir, og hefi jeg enga ástæðu til að rengja orð hans. Að því athuguðu býst jeg tæplega við því, að n. leggist á móti þeim. Sje jeg að svo mæltu enga ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál að sinni.