10.05.1929
Efri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2568 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

77. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Guðmundur Ólafsson:

Jeg kann ekki við annað en fylgja þessum till. mínum úr garði með nokkrum orðum. Jeg held nú, eftir að hv. frsm. hefir talað, að jeg gæti sparað mjer þetta ómak, enda hefir hann tekið mjög vingjarnlega í brtt. mínar. Að vísu var ekki annars að vænta, því að brtt. mínar eru áreiðanlega eins þarfar og brtt. n., að þeim ólöstuðum. Hv. frsm. sagði, að frv. hefði mjög breytst í meðförum þingsins. Það er að sönnu rjett, en þó mun hitt enn meir áberandi, hvílík ósköp það hefir vaxið. Vöxtur þess hefir verið geysilegur í móðurskauti hv. Nd. Hygg jeg það muni vera einn hinn hraðasti vöxtur, sem átt hefir sjer stað um nokkurt fóstur. í upphafi var það aðeins örlítið kríli, en hv. Nd. hefir tekist blessunarlega að teygja úr því, eins og raun ber vitni um. Frv. fór upphaflega fram á 1 eða 2 línuspotta, sem voru 5 til 6 mílur að lengd, en nú er orðinn slíkur fjöldi nýrra lína, að vart verður tölu á komið. Samanlögð lengd þeirrar símaaukningar, sem frv. gerir ráð fyrir, nemur yfir 609 km. Þetta er í sjálfu sjer ekki óeðlilegt. Fyrst á annað borð eru teknar nýjar línur inn á símalögin, þá virðist eðlilegt og sanngjarnt, að þau hjeruð, sem nú vantar tilfinnanlega nýjar símalínur, noti tækifærið og fái þær teknar upp í lögin. En hinsvegar ber á það að líta, að þótt þetta frv. nái lagagildi, þá breytir það í engu afstöðu fjárveitingavaldsins til þessara mála. Það hefir eftir sem áður úrskurðarvald um það, hvenær hafist skuli handa um hinar einstöku framkvæmdir og hversu miklu fje skuli varið í því skyni.

Brtt. mínar á þskj. 548 fara fram á að bæta við 1. gr. fjórum smálínum. Liggja tvær þeirra fram Svartárdal, sem sje línan frá Bólstaðahlíð að Bergsstöðum, og frá Höskuldsstöðum að Kirkjuskarði. Ein línan liggur fram Laxárdal. Báðir eru dalir þessir mjög afskektir, svo sem kunnugt er. Er því mjög brýn þörf á símasambandi, eins og af líkum má ráða. Hefir símaleysið einatt orðið að miklum baga fyrir hlutaðeigandi hjeruð, og vil jeg því vænta þess, að hv. deild sýni fullan skilning á þeirri nauðsyn. Sama er að segja um línuna frá Kálfshamarsvík og út að Höfnum, sem eru utarlega á Skaga, milli Húnaflóa og Skagafjarðar. Geta má þess, að í frv. er farið fram á línu út á ystu tá á austanverðum Skaganum. Þessar línur, sem brtt. mín fer fram á. eru að lengd kringum 37 km., og getur því tæpast talist stórlega varhugavert, þótt hv. d. samþ. brtt. mínar.

Eins og hv. frsm. tók fram, hefir n. ekki leitað álits landssímastjóra um till. mínar. Jeg geri þó ráð fyrir, að ef hún hefði verið áfram um það, þá hefði hún haft nægan tíma til þess.

En eins og jeg skýrði hv. frsm. frá, þá hefi jeg borið till. undir landssímastjóra sjálfur, og mun hann kannast við það, ef int verður eftir. Jeg bar till. undir hann áður en þær voru prentaðar. Hann var þeim fyllilega samþykkur, og með því að hv. frsm. hefir lýst því yfir, að hann tæki orð mín trúanleg, þá sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta atriði.

Að lokum vil jeg taka það fram, að jeg álít sjálfsagt að samþ. frv. með þeim brtt., sem fram hafa komið.