27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2578 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

94. mál, hæstiréttur

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Frv. á þskj. 158 gerir lítilsháttar breyt. á hæstarjettarlögunum frá 1919. Þegar hæstirjettur var stofnaður og landsyfirdómurinn lagður niður, var ætlast til, að þeir málaflutningsmenn, sem áður störfuðu við yfirdóminn, fengju rjett til þess að flytja mál fyrir hæstarjetti, eftir að hafa leyst af hendi prófraun samkv. hæstarjettarlögunum. Nú hafa þeir allir int þessa prófraun af hendi, nema þrír menn, að sagt er. Nú fer þetta frv. fram á að nema burtu þetta 3 ára tímatakmark úr hæstarjettarlögunum, svo að þessum mönnum gefist einnig kostur á að flytja mál fyrir hæstarjetti. Annað er það nú ekki, sem frv. fer fram á, og leggur allshn. til, að það verði samþ. Leitað hefir verið álits hæstarjettar um málið, og mun það álit liggja hjá allshn. Nd., en eigi er mjer kunnugt um, hvort nokkuð er á því að græða; það kvað vera helst til loðið og óákveðið, en þó enganveginn á móti frv. Enda eru breyt. þær, sem frv. fer fram á, svo lítilfjörlegar, að engin ástæða er til að leggjast á móti þeim. Allshn. leggur því til, að frv. verði látið ná framgangi á þessu þingi.