25.03.1929
Efri deild: 31. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Landbúnaðarnefnd gat ekki orðið á eitt sátt um afgr. frv. þessa, enda þótt hún sje öll á einu máli um það, að nauðsyn beri til að ráða bót á því, sem frv. er ætlað að laga.

Frv. þetta á að verða heimildarlög fyrir stj. til þess að setja á stofn rannsóknar- og tilraunastofu í þarfir atvinnuveganna, eftir nánari ákvæðum, sem um það verða sett. Að jeg gat ekki orðið samnefndarmönnum mínum samferða um afgreiðslu frv., er sökum þess, að jeg tel það ekki nægilega undirbúið til þess að verða að lögum á þessu þingi. Hefi jeg því borið fram sjerstakt nál., á þskj. 185.

Hvað snertir 3. gr. frv., þá virðist mjer hún benda til þess, að stofnun sú, sem hjer ræðir um, geti ekki einu sinni orðið vísir til slíkrar stofnunar sem 1. og 2. gr. ræða um, því að í 1. gr. er talað um, að stofnun þessi geti látið efnarannsóknarstofu ríkisins eða rannsóknarstofu háskólans athuga fyrir sig. Í 2. gr. frv. er það tekið fram, hvert verkefni rannsóknarstofu þessarar skuli vera, og er það samkvæmt henni svo víðtækt, að óhugsandi er, að einn maður geti int það alt af hendi. Það, sem henni er ætlað að gera, er:

1. Efnafræðilegar rannsóknir.

2. Gerla- og sýklarannsóknir.

3. Fjörvirannsóknir.

4. Jurtasjúkdóma.

5. Ýmsar aðrar rannsóknir, sem heyra undir allar þessar tegundir.

Allar þessar , rannsóknir eru svo sundurleitar, umfangsmiklar og vandasamar, og jeg þekki engan einn mann með þeirri þekkingu, að hann geti int alt þetta af hendi. Þá verður að athuga alt vel í sambandi við þær, áður en byrjað er á þeim, til þess fyrst og fremst, að þær komi að tilætluðum notum, og í öðru lagi að þær verði ekki alt of kostnaðarsamar fyrir landið. Jeg tel því með öllu ógerlegt að hrapa svo mjög að þessu sem með frv. þessu virðist gert.

í 5. gr. frv. er svo kveðið á, að ríkisstjórnin skipi stofnun þessari forstöðumann, sem hafi nægilega vísindalega mentun til starfans, og jafnframt á hún að fá honum nægilega aðstoð. Eftir þessu skilst mjer, að forstöðumaðurinn eigi að ráða því sjálfur, hve mikla aðstoð hann fær, en að þingið eigi engu þar um að ráða.

Þá er og í 6. gr. ákveðið, að ríkissjóður leggi fram nægilegt fje til rekstrarkostnaðar stofnun þessari, og það eflaust eftir till. forstöðumannsins. Virðist mjer því, að honum sje með þessu fengið ærið mikið vald í hendur til þess að heimta fje úr ríkissjóðnum. Mjer hefði því fundist rjettara að flýta máli þessu ekki svo mjög sem hjer virðist gert, þar sem ekki eru athugaðir í sambandi við það jafnsjálfsagðir hlutir sem þetta. Jeg fyrir mitt leyti hefði því getað fallist á, að skipuð væri t. d. 5 manna nefnd til þess að undirbúa mál þetta fyrir næsta þing, og virtist mjer vel til fallið, að nefnd sú væri t. d. skipuð forstöðumönnum rannsóknarstofanna, háskólans og ríkisins, og sínum fulltrúanum frá hvoru, Fiskifjelaginu og Búnaðarfjelagi Íslands, og einum af dýralæknum landsins.

Þegar maður nú lítur á störf þau, sem stofnun þessari er ætlað að vinna, þá er það ljóst, að mestur hluti þeirra fellur nú undir efnarannsóknarstofu ríkisins, en í frv. er ekkert talað um annað en að hún eigi að halda áfram eftir sem áður án viðbótarstyrks af fje og starfskröftum, þó að þessi nýja rannsóknarstofa verði sett á stofn. Það er þó ætlast til, að hún bæti á sig störfum fyrir þessa nýju rannsóknarstofu. Það virðist því ekki hjá því verða komist að auka að einhverju leyti starfskrafta við hana og þar af leiðandi fjárframlög til hennar. Þetta verður líka að athuga áður en hlaupið er til framkvæmda í þessu máli. Auk þess þarf að útvega henni ýmisleg áhöld og rúmbetra húsnæði.

Um efnarannsóknastofu háskólans er hið sama að segja. Hún hefir of lítið húsrúm og þarfnast ýmsra tækja til þess að geta starfað hliðstætt við aðrar slíkar stofnanir. Erlendis eru slíkar rannsóknarstofur sem þessar víða mjög stórar og fullkomnar, en að sjálfsögðu verðum við í þessu efni sem öðru að sníða okkur stakk eftir vexti.

Það, sem okkur ríður mest á að fá rannsakað, eru húsdýrasjúkdómarnir. Rannsókn á þeim yrði sennilega að felast dýralækni, sem jafnframt væri vel að sjer í dýrasjúkdómafræði (Pathologi), en slíkum mönnum höfum við ekki á að skipa. Teldi jeg því rjettast, að stjórnin sneri sjer til landbúnaðarráðuneytanna í nágrannalöndunum og fengi leiðbeiningar hjá þeim í þessum efnum og jafnframt bendingu um hæfan mann til starfans. Það tel jeg nauðsynlegt, og mun jeg því bera fram tillögu um, að fje verði veitt í fjárlögum stjórninni til umráða í þessu skyni. Af húsdýrasjúkdómunum munu lungnaormasjúkdómarnir vera erfiðastir viðfangs og þeim næst fjöruskjögrið, sem er mjög algengt þar, sem fjörubeit er hjer á landi. Að rannsóknum á því hefir verið unnið dálítið í vetur af þýskum manni og skólastjóranum á Hvanneyri, og munu þeir telja, að vöntun bætiefna í fóðrið sje aðalorsök þess. Úr því má bæta með því að láta ærnar ekki ganga í fjöru um meðgöngutímann. Jeg skal og geta þess í þessu sambandi, að einn glöggur og greinagóður maður hefir sagt mjer, að honum hafi tekist að útrýma fjöruskjögri með því að lóga því fje, sem vott hefði af fjöruskjögri, og fá nýjan stofn í staðinn, er lifað hefði við ólíka staðháttu.

Það, sem jeg því finn frv. þessu aðallega til foráttu, er það, að engin áætlun fylgir um það, hvern kostnað það muni hafa í för með sjer. Er því ekki hægt að ætlast til, að þingmenn gangi inn á það, þar sem þeim er falið af kjósendum sínum að viðhafa alla gætni í fjármálum. Hjer er ekki svo mikið sem gefin minsta hugmynd um, hvaða laun forstöðumaðurinn eigi að hafa, hvað þá meira.

Af þessum ástæðum ræð jeg hv. þm. til þess að skjóta frv. þessu á frest til næsta þings til frekari undirbúnings, en legg til, að til bráðabirgða verði fenginn erlendur sjerfræðingur til þess að rannsaka þá húsdýrasjúkdóma, sem mestum spjöllum valda hjá okkur. Legg jeg því til, að rökstudda dagskráin á þskj. 185 verði samþ. Hún hljóðar þannig: „Með því að deildin telur málið mikilsvert, en ekki nægilega undirbúið, ályktar hún að vísa því til stjórnarinnar til frekari undirbúnings og væntir þess, að honum verði lokið svo snemma, að stjórnin geti lagt fyrir næsta þing frv. um þetta efni“.