25.03.1929
Efri deild: 31. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vii leyfa mjer að þakka hv. nefnd fyrir afgreiðslu þessa máls, enda þótt hún hafi dregist nokkuð lengi. Það er ljóst af nál. beggja nefndarhlutanna, að þeir telja hvorirtveggja, að hjer sje um þýðingarmikið mál að ræða, enda þótt þeir komist að ólíkri niðurstöðu út frá sömu forsendum. Hv. meiri hl. felst á að fá stjórninni í hendur heimild þá, sem frv. ræðir um, og jeg skal jafnframt geta þess hjer, að það eru fleiri en hann, sem sjá og skilja hina miklu nauðsyn þessa máls. Búnaðarþingið fjekk frv. þetta einnig til meðferðar, og hafði sjerstök nefnd þar það til meðferðar, og bar hún fram svo hljóðandi tillögu:

„Búnaðarþingið mælir eindregið með því, að frv. til laga um rannsóknir í þarfir atvinnuveganna nái fram að ganga á næsta Alþingi“.

Var svo tillaga þessi samþ. af öllum fulltrúum bændanna, sem þar áttu sæti alstaðar að af landinu. (BK: Var þar nokkur sjerfræðingur á þessum sviðum?). Ekki beinlínis sjerfræðingur, en einn af dýralæknum landsins og skólastjóri annars bændaskólans áttu sæti þar.

Hv. minni hl. vill aftur á móti ekki fá stjórninni í hendur heimild þá, sem í frv. þessu felst, og leggur því til, að öllum framkvæmdum í þessum efnum verði skotið á frest til næsta þings, aðallega sökum þess, að hann telur málið ekki nægilega undirbúið, og þá sjerstaklega að því leyti, að ekki liggur fyrir sundurliðuð skýrsla um kostnað þann, sem af því muni leiða. Um þetta atriði töluðum við þegar við fyrstu umræðu málsins hjer í deildinni, og tók jeg þá fram, að ekki væri hægt að segja neitt ákveðið um kostnaðarhlið málsins, meðan ekki væri víst, hver yrði forstöðumaður rannsóknarstofunnar og hversu fyrirkomulaginu um hana yrði háttað yfirleitt. Eins og jeg mun hafa getið um, þá er ekki hægt að segja um, hvort hægt muni verða að fá þann mann, sem jeg sjerstaklega hefi haft augastað á, sem sje Skúla Guðjónsson lækni, eða hvort taka verður erlendan mann. Um þetta er að sjálfsögðu heldur ekkert hægt að segja með vissu, fyr en stjórnin er búin að fá heimild þingsins til þess að ráða einhvern mann í þessu skyni. Þegar sú heimild er fengin, er fyrst hægt að fastráða mann og segja eitthvað ákveðið um kostnaðinn. Mjer finst því, að þótt dagskrá hv. minni hl. verði samþ., þá sje ekki hægt að gera meira í málinu en hjer er farið fram á. Jeg tel þetta svo mikið nauðsynjamál, að ekki megi dragast lengur að hefjast handa í því. Og jeg er þeirrar skoðunar, að það hefði átt að vera búið fyrir löngu að veita stjórninni heimild til framkvæmda í þessu máli.

Þá sagði hv. minni hl., að með frv. þessu væri hrapað að framkvæmdum málsins. Sjerstaklega var það þó hin fjárhagslega hlið þess, sem honum fanst varhugaverð. Slík varfærni finst mjer ofureðlileg hjá manni úr andstöðuflokki stjórnarinnar, því að venjan er sú, að þeir eru altaf staðari og treysta stjórninni ver en flokksmenn hennar. Vilja þeir þar af leiðandi altaf fá henni sem minst völd í hendur.

Eitt af því, sem hv. frsm. minni hl. hjelt fram gegn frv., var það, að hann taldi, að forstöðumaður rannsóknarstofunnar gæti heimtað þá aðstoð, sem honum sýndist. En þetta er ekki rjett, því að í 5. gr. frv. stendur, að ríkisstjórnin ráði forstöðumanninn og fái honum nægilega aðstoð. Hjer er beinlínis átt við það, að ríkisstjórnin ákveði laun aðstoðarmannanna og einnig hve margir þeir verði. Þá sagði hann ennfremur, að laun forstöðumannsins væru hvergi ákveðin. En í 6. gr. stendur: „Allur kostnaður við stofnun og rekstur stofunnar skal greiddur úr ríkissjóði, og skal í fjárlögum ákveða laun starfsmanna og nægilegt fje til annars rekstrarkostnaðar“. Það er því ekki hægt að láta þennan mann fá hærri laun en Alþingi ákveður.

Jeg vona, að frv. nái fram að ganga, þó að nokkur dráttur hafi orðið á afgreiðslu þess. Og jeg skal lýsa yfir því, að þó að stjórninni verði veitt heimild sú, sem farið er fram á í frv., þá mun hún eigi notuð til að eyða fje ríkisins fram yfir það, sem bráðnauðsynlegt er. En heimildina þarf stjórnin að hafa, til þess að geta hafist handa í alvöru í þessu efni og m. a. til þess að geta samið við þær stofnanir, sem að einhverju leyti mundu eiga samvinnu við þessa væntanlegu rannsóknarstofu í þarfir atvinnuveganna.