22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2596 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

66. mál, hafnarlög fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Frsm. meiri hl. (Ólafur Thors):

Jeg hefi lofað hæstv. forseta því að vera stuttorður um þetta stóra mál, enda get jeg játað, að jeg legg meira upp úr því, að málið dagi ekki uppi, en að fari fram um það langar umr.

Jeg hefi skrifað allítarlegt nál. um málið, og ef hv. þm. hafa sýnt málinu þann sóma að lesa það, hafa þeir sjeð þar þau rök, er jeg hefði annars óskað að bera fram. Fyrir Alþingi liggja nú mörg frv. um fjárframlög úr ríkissjóði til hafnarbóta, og er öllum ljóst, að þau geta ekki öll náð fram að ganga, því að óhugsandi er, að ríkissjóður geti lagt fram alt það fje á næsta ári eða næstu árum.

Jeg tel, að það varði því mestu fyrir hv. þdm. að gera sjer grein fyrir því, hvort hægt er að segja, að eitt af þessum frv. eigi meiri rjett á sjer en hin, og jeg efa ekki, að ef þeir kynna sjer þessi mál, sjá þeir, að svo er, — sjá, að það er Hafnarfjörður, sem á ríkari og meiri kröfurjett en aðrar þær hafnargerðir, sem eru á döfinni. Að þessu hefir meiri hl. n. fært allsterk rök í því nál., sem hann hefir látið frá sjer fara og er á þskj. 298. En höfuðrök meiri hl. eru þau, að nú þegar er í Hafnarfirði mjög mikil útgerð; þaðan ganga nú 12 togarar og 10 línuveiðaskip, og öll þessi mikla útgerð Hafnarfjarðár er beinlínis í voða, ef ekki eru gerðar þær umbætur, sem hjer er farið fram á.

Svo sem kunnugt er, þá er Hafnarfjarðarhöfn góð í öllum áttum nema vestanátt; þá er hún opin fyrir óbrotnum sjóum utan af flóanum, og það er hending ein, að ekki hefir stafað af því miklu meira tjón en verið hefir á undanförnum árum. — Það vita allir, að það er langviðrasamt hjer á landi, og það hefir gengið svo síðustu árin, að Hafnarfjörður hefir losnað við höfuðóvin sinn, vestanstaðviðrin, en fyr en varir má gera ráð fyrir, að Hafnfirðingar verði fyrir vestanáttinni, og þá er beinlínis ómögulegt að afgreiða allan þann mikla skipaflota, sem hefst við í Hafnarfirði. Það verður ekki gert öðruvísi en með hafnarbótum. Hitt er og sannanlegt, að það er ómögulegt að afgreiða þennan skipaflota við þá einu bryggju, sem nú er í Hafnarfirði, en það er að kasta peningum á glæ, að fara að gera þar aðra bryggju áður en höfnin er komin, því að varanleg hafnarbót verður að koma fyr en bryggjugerð er hafin. Auk þess eru allri þróun útgerðar í Hafnarfirði skorður settar svo lengi sem hún er í slíkum voða sem nú er. Af þeim útvegi landsmanna, sem á síðari árum hefir leitað til Faxaflóa á fiskveiðitímanum, stafar nú svo mikil þröng í Reykjavíkurhöfn, að þar er síst á bætandi, og þarf miklar hafnarbætur hjer, ef á að fullnægja þeirri þörf, sem nú þegar er á orðin. Það er og vaxandi straumur af skipum þeirra manna, sem búsettir eru úti á landi, hingað til Faxaflóa, og það verður að skapa þeim vexti eðlilega þróun. Það verður ekki gert á betri, hentari nje rjettmætari hátt en að bæta höfnina í Hafnarfirði. Hjer koma því saman öll rök til staðfestingar þeim dómi meiri hl. sjútvn., að það beri að láta Hafnarfjörð ganga fyrir. Þörfin er svo brýn, að það má ekki dragast. Þetta er svo mikið hagsmunamál alþjóðar, að af getur hlotist mikill skaði fyrir alla landsmenn, ef þar verður nokkur töf á.

Jeg vil aðeins, í tilefni af áliti minni hl. sjútvn., geta þess, að það er ekki að öllu leyti rjett með farið í því nál. Hv. minni hl. skýrir frá því, að Hafnarfjarðarhöfn eigi óeyddan sjóð, er nemi 800000 kr. Það er rjett, að hafnarsjóður Hafnarfjarðar er að nafninu til 800000 kr., en af því er handbært fje liðugar 200000 kr., og er ætlun Hafnfirðinga sú, að nota það fje til annara hafnarbóta, í sambandi við hafnargarðinn, sem ætlast er til, að bygður verði samkv. þessu frv. Það er því ekki rjett að tefla þessu fram til andmæla gegn því, að ríkissjóður styrki þessa hafnargerð, vegna þess að sjóðurinn verður ekki handbært fje í stærra mæli en það, að það mætti kannske vænta þess, að með þeim afborgunum, sem greiddar verða af útistandandi lánum hafnarsjóðs, mætti greiða afborganir af þeim lánum, sem ríkissjóður gengi í ábyrgð fyrir vegna Hafnarfjarðar samkv. frv. Það er heldur ekki alveg rjett með farið hjá hv. minni hl. n., þegar hann skýrir frá því, að það sje venja hjá ríkissjóði að leggja aðeins einn fjórða hluta til hafnargerða, því að hv. minni hl. veit vel, að t. d. Vestmannaeyingar hafa fengið a. m. k. þriðjung greiddan, og hæstv. ríkisstj. ber sjálf fram frv. um að leggja til hafnargerðar á Skagaströnd alt að helmingi kostnaðar, og það er næstum broslegt hjá hv. 1. þm. S.-M. — sem mælir með framlagi til Skagastrandarhafnar alt að 2/5 hlutum kostnaðar —, þegar hann er að reyna að byggja brú á milli aðstöðu sinnar í þessum tveimur málum með því að telja það, sem á að gera á Skagaströnd, lendingarbót, því það hefir við engin rök að styðjast.

Jeg þarf ekki að svara þeim vjefengingum, sem hv. minni hl. hefir haft um nauðsyn á hafnarbótum í Hafnarfirði, með öðru en jeg hefi þegar gert, og það komu raunar ekki fram nein þau rök í áliti hv. minni hl., sem jeg ekki þegar hefi andmælt í fyrri hluta þessarar stuttu ræðu, þar sem jeg færði rök fyrir forgangskröfurjetti Hafnarfjarðarkaupstaðar til hafnarbóta.

Mjer til mikillar undrunar hefi jeg sjeð á nál. hv. minni hl., að hann lætur sjer ekki aðeins nægja að færa framlagið niður í einn fjórða, heldur leggur hann líka til, að ríkissjóður ábyrgist ekki nema helming kostnaðar, en í n. hafði þó talast svo til, að þeir lofuðu að leggja til, að ríkissjóður ábyrgðist 3/4 kostnaðar, en legði til 1/4.

Jeg mun nú ljúka máli mínu — til þess að efna það, sem jeg lofaði hæstv. forseta, en ekki af því, að jeg hafi ekki næg rök fram að færa máli mínu til stuðnings — með þeirri bendingu til hv. þdm., að það sýnist liggja nær að bæta þá höfn, sem hjer er um að ræða, þegar alþjóðarnauðsyn krefur, heldur en að leggja fram 300000 kr. úr ríkissjóði og ganga í ábyrgð fyrir ennþá stærri upphæð til að byggja nýja höfn við Húnaflóa, þar sem árangurinn þó hvergi nærri er jafnauðsær.