22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

66. mál, hafnarlög fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Hv. frsm. meiri hl. er í rauninni búinn að svara því, sem hann ætlar að jeg muni segja. (ÓTh: Jeg sje það af nál. hv. minni hl.). Nál. á þskj. 371 er að vísu stutt, en fljótlegt að átta sig á því, og jeg hygg, að hv. þdm. hafi þegar gert sjer ljósa grein fyrir því, hvað á milli ber meiri og minni hl., og jeg held, að þeim sje það líka vel ljóst, að það er ekki líku saman að jafna um hafnargerð í Hafnarfirði og hafnargerð norður á Skagaströnd, að ástæðurnar og aðstæðurnar eru svo gagnólíkar, að svipuð regla á alls ekki við á báðum stöðum. Hafnarfj. á, eins og þegar hefir verið frá skýrt, geysilega stóran hafnarsjóð, og er sá sjóður alt að því einfær um að byggja höfnina. Þessi mikli aðstöðumunur rjettlætir að minni hyggju það að færa tillagið niður í það venjulega framlag, sem verið hefir einn fjórði hluti af kostnaði við hafnargerðina. Að vitna í Vestmannaeyjar er heldur ekki einhlítt í þessu efni, eins og hv. frsm. meiri hl. gerði. Það var upphaflega sem var lagður til hafnargerðar í Vestmannaeyjum, en síðar, eftir að það kom í ljós, að hafnarsjóður Vestmannaeyja ekki með nokkru móti gat risið undir kostnaðinum við að endurbæta höfnina, var tillagið fært upp í 1/3.

Jeg vil ekki mæla því í móti, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að það sje mjög æskilegt, gott og nauðsynlegt að geta hið fyrsta fengið höfnina í Hafnarfirði endurbætta, en það er þó ekki jafnaðkallandi þar eins og á þeim stöðum, þar sem hafnirnar verða alls ekki notaðar fyrir því hve opnar þær eru og skjóllausar. Hafnarfjarðarhöfn er, eins og hv. þm. kannaðist við, tiltölulega góð og örugg; það er þá þessi aukna útgerð, sem gerir það svo aðkallandi að bæta hana. Bæði hv. þm. og jeg vildum gjarnan, að það gæti farið svo, að ríkissjóður sem allra fyrst gæti sint, erindi Hafnfirðinga, en hinsvegar virðast okkar minnihl.mönnum ekki rjett að láta þessa fjárveitingu vera fortakslaust á undan öllum öðrum og hærri en t. d. í Rvík og Vestmannaeyjum. Margt kallar að, og óvíst hvort ríkissjóður má við því þegar í stað að leggja fram fjeð, og þess vegna viljum við binda við heimild stj. til að leggja fram fjeð, en skuldbinda ekki. Við viljum hinsvegar gera ráð fyrir, að því verði sint eins fljótt og hægt er. Það er, eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, upplýst, að hafnarsjóður Hafnarfjarðar á óeyddar meira en 800000 kr., og jeg leyfi mjer að segja óeyddar eins fyrir því, þó að um 500000 kr. af þessu fje sje lánað bæjarsjóði, en með tilliti til þess, að svona mikil upphæð, sem sje 500000 kr., eins og lánað er bæjarsjóði, er ekki handbært fje, vill minni hl. leggja til, að ríkissjóðsábyrgðin sje í lögunum ákveðin álíka mikil og nemur þessu fje, með því að framlag þeirrar ábyrgðar og tillag ríkissjóðs er nægilegt fje til byggingarinnar, og mundi það að öllum líkindum ekki stranda á því, að verkið gengi fram. Samkv. þessu hefir minni hl. lagt til, að 1. og 2. gr. frv. væri breytt á þann veg, sem þegar er nefnt, fyrst og fremst að veitt væri heimild til að leggja fram þann 1/4. hluta, sem til þarf, og í öðru lagi, að ábyrgð ríkissjóðs verði takmörkuð við 500000 kr., í staðinn fyrir 667000 kr., sem í frv. stendur.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, það mun vera nokkurn veginn ljóst og athugað mál fyrir flestum. jafnvel öllum hv. þdm.; tel jeg því tilgangslaust að deila um þetta, og sjálfsagt að láta atkvæðin skera úr, en ekki að vera að lengja umr.