03.05.1929
Efri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2611 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

66. mál, hafnarlög fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Björn Kristjánsson:

Jeg verð að þakka hv. meiri hl. n. fyrir það, hve vingjarnlega hann hefir tekið í þetta mál, en hinsvegar verð jeg að segja það, að jeg átti ekki von á, að frv. mætti slíkri mótstöðu sem fram hefir komið frá hv. 2. þm. S.-M. gegn þessu máli. Það er að vísu rjett hjá honum, að fjárveiting til hafnargerðar í Hafnarfirði er ekki tekin upp í fjárl., en hitt er rangt, að þetta frv. stingi í stúf við önnur frv. af sama tægi hvað framlag ríkissjóðs snertir. Jeg veit ekki betur en að hv. 2. þm. S.-M. hafi sjálfur greitt atkv. með ríkissjóðsframlagi að 2/5 hlutum kostnaðar við slíkar framkvæmdir. Þetta gerðist nú á þessu þingi, svo að ekki þarf lengra að fara, svo að hv. þm. ætti að spara sjer digurbarkaleg ummæli um þetta atriði. Hinsvegar virtist hv. þm. geta viðurkent þörfina fyrir bættri höfn, en mjer er nær að halda, að hv. þm. sje ekki nægilega kunnur, hvernig hagar til í Hafnarfirði og hversu rík og aðkallandi nauðsyn er á hafnarbótum. Nú standa sakir svo, að höfnin er venjulega yfirfull, skip verða að bíða svo og svo lengi eftir losun og afgreiðslu, og má það vera öllum ljóst, hvílíkur bagi er að slíku, enda mun það mála sannast, að stórtjón sje yfirvofandi bænum, ef ekki verður undinn bráður bugur að því að kippa þessu í lag. En viðvíkjandi ummælum hv. 2. þm. S.-M. um, að farið væri fram á hlutfallslega hærra tillag úr ríkissjóði í þessu. frv. en öðrum samskonar, þá skal jeg benda á það, að til Borgarness hefir ríkið veitt helming og til Vestmannaeyja helming og til hafnargerðar á Skagaströnd samkv. frv. tvo fimtu hluta kostnaðar. Það er því öðru nær en að hjer sje farið fram á hærra ríkissjóðstillag en venja er til.

Hv. þm. sagðist vera fús til að greiða atkv. með því, að ríkisábyrgð væri veitt, en sú ábyrgð er samkv. brtt. hans svo takmörkuð, að um 50 þús. kr. vantar til þess að nægilegt sje. Hv. þm. vildi einnig halda því fram, að þar eð hafnarsjóður væri vel ríkur, þá væri minni ástæða til mikilla fjárframlaga af ríkisins hálfu. En það er svo langur vegur frá, að þetta fje sje handbært; það er bundið í útlánum, sem ekki er hægt að fá inn nema á löngum tíma. Hagur Hafnarfjarðar er enganveginn glæsilegur, eins og sjá má af útsvörunum þar, sem eru svo gífurleg, að efnameiri menn flýja burt úr kaupstaðnum. Og engar líkur eru til þess, að hafnarsjóður geti neitt innt af hendi fyrst um sinn, og því er þýðingarlaust að vísa á þann sjóð í þessu sambandi. Fje hans er mestmegnis í lánum, alls ekki vel tryggum, og þó það sje ef til vill ekki tapað, þá er það ekki handbært nema að einum fjórða hluta, eða svo. Það eru ekki nema nokkur ár síðan ákveðið var að halda sjóðnum sjerskildum frá bæjarsjóði. Það er því þýðingarlaust að halda því fram, að Hafnarfjörður geti á eigin ramleik staðið straum af þessum framkvæmdum. Ríkið verður að hjálpa upp á sakirnar. Þörfin er svo aðkallandi, að málið þolir enga bið. Það verður að hefjast handa strax, ef ekki á að tefla afkomu Hafnarfjarðar í beinan voða. Ríkið ef til vill verður að taka smálán í þessu skyni, svo að þetta þurfi ekki að dragast lengur.

Menn hafa oft talað um, að höfnin væri góð af náttúrunnar hendi. Það er hún að vissu leyti. En hún getur verið mjög ótrygg og í vestanveðrum stórhættuleg. Enda er ekki langt síðan strandaði þar gufuskip og megnið af skipshöfninni fórst. Áður en þetta var, höfðu strandað þar tvö seglskip. Höfnin er nú ekki betri en þetta, þrátt fyrir alt. Mega menn af þessu sjá og skilja, hvílíkur voði vofir sífelt yfir skipastól og sjómannastjett Hafnarfjarðar, ef ekki er hafist handa áður en langt um líður.

Viðvíkjandi viðbótartill. hv. 2. þm. S.-M. við 1. gr. frv., þá skal jeg taka það fram, að bæjarstj. hefir þegar fyrir skömmu ráðið sjerstakan verkfræðing til þess að standa fyrir öllum framkvæmdum bæjarins. Jeg geri ráð fyrir, að verkinu væri vel borgið í höndum hans; annars býst jeg við, að bæjarstj. hefði ekkert á móti því, þótt þetta ákvæði væri sett inn í frv., en jeg tel það alveg óþarft. Jeg vil því, að þessu öllu athuguðu, leggja fastlega til, að hv. deild samþ. frv. óbreytt, eins og meiri hl. n. hefir lagt til.