25.03.1929
Efri deild: 31. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Halldór Steinsson:

Jeg get verið mjög vel ánægður með þessa ræðu hæstv. forsrh., því að hann hefir lýst yfir því, að hann er mjer algerlega sammála um að leggja áherslu á 1. lið 2. gr., sem er um það, að reyna að finna orsakir þeirra sjúkdóma, sem mestu tjóni valda á búfje landsmanna. En þar sem þetta hefir verið sannfæring hæstv. ráðh. og er, að því er mjer skilst, ennþá, þá fer þetta frv. í dálítinn bága við þessa sannfæringu. Jeg hefði kunnað betur við, að aðeins þessi 1. liður 2. gr. hefði staðið í þeirri gr., en jeg treysti því, ef þetta frv. verður samþ., þá hagi hæstv. forsrh. framkvæmdum þessa máls samkvæmt hans skoðun, þeirri, sem hann nú hefir lýst yfir.