03.05.1929
Efri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

66. mál, hafnarlög fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Ingvar Pálmason:

Jeg hefi ekki miklu að svara hv. 1. þm. G.-K., því að hann staðfesti í öllum aðalatriðum ummæli mín um afstöðu Hafnarfjarðarkaupstaðar til hafnarbyggingar. Þó verð jeg að leiðrjetta það hjá hv. þm., að jeg hafi sjálfur greitt atkv. með 2/5 til hafnargerðar annarsstaðar. Þetta er nefnil. ekki rjett. Jeg fylgdi till. sjútvn., en vildi ekki ganga á móti frv. eftir að ákvæði þetta komst inn í það. En þó að við færum nú að taka Skagaströnd til samanburðar með 2/5 tillag úr ríkissjóði á móti Hafnarfirði með þá verður samt ekki annað með sanni sagt en að Hafnarfjörður standi eigi að síður miklu betur að vígi með sína höfn. Þá staðfesti hv. þm. ummæli mín um eignir hafnarsjóðs Hafnarfjarðar, en sagði, að fjeð væri ekki handbært. Þetta hafði jeg líka tekið fram, en jafnframt, að til væri þó handbært um 200 þús. kr. Jeg vil nú spyrja: Hvað haldið þið t. d., að Vestmannaeyingar segðu, sem búnir eru að skattleggja sig umfram getu vegna sinnar hafnar, ef við rjettum að þeim 200 þús. kr.? Jeg býst ekki við, að þeir myndu fara fram á tillag úr ríkissjóði, ef þeir hefðu yfir svo miklu skuldlausu fje að ráða. Annars verð jeg að draga í efa, að því fje, sem hafnarsjóður Hafnarfjarðar á í útlánum, sje nokkur hætta búin. Það er að mestu hjá bæjarsjóði, og er því a. m. k. gefið, að vextir eru greiddir af því. Hv. 1. þm. G.-K. hefir því einmitt komið sjálfur með sannanir fyrir því, að Hafnfirðingar sjálfir geti staðið straum af þessum hafnarvirkjum án framlags úr ríkissjóði, þegar þeir geta hvenær sem er haft handbærar 900 þús. kr. (BK: Þetta er ekki rjett hjá hv. þm.). Jú, það er víst rjett; 200 þús. kr. eru þegar til og 700 þús. kr. ábyrgð er boðin fram með minni till. Þetta gerir 900 þús. kr.

Þá sagði hv. þm., að það væri stórskaði, ef það drægist lengi að byrja á þessum hafnarvirkjum. Þarna erum við alveg sammála. Jeg vildi helst, að það drægist ekki um einn dag. Og jeg verð að segja, að mjer þykir einkennilegt það áhugaleysi, sem lýsir sjer hjá Hafnfirðingum í því að vera ekki fyrir löngu byrjaðir á þessu þarfa verki, en þó er jeg ennþá meira hissa á því, að svo virðist helst, sem þeir vilji láta kaupa sig til þess.

Þá sagði hv. þm., að þessi hafnargerð yrði að gerast sem allra fyrst, vegna þess meðal annars, að Reykjavíkurhöfn væri að verða of lítil. Þetta er rjett. En þá er líka gróðinn af höfninni þeim mun vissari. Jeg vil því spyrja: Getur hv. þm. bent á slíka aðstöðu nokkursstaðar á landinu?

Þá sagði hv. þm., að þetta ættu að verða fyrstu peningarnir, sem ríkissjóður veitti til hafnargerða. Hvort svo verður eða ekki, er vitanlega ekki á mínu valdi að ákveða. En fari svo, að það verði fyrstu peningamir, sem til hafnargerða verða veittir á þessu eða næsta ári, þá er fylstu sanngirni ekki gætt, a. m. k. ekki gagnvart Vestmannaeyingum, sem hafa lagt á sig mikla skatta og þungar byrðar vegna sinnar hafnar. Jeg vil svo að lokum taka undir það með hæstv. fjmrh., að hjer sje gengið helst til of langt í því að ná fje úr ríkissjóðnum, þar sem það virðist helst gefið í skyn, að því aðeins vilji Hafnfirðingar byggja höfn þessa, að ríkissjóður borgi þeim eitthvað fyrir það.